138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

skuldavandi ungs barnafólks.

[13:46]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Samkvæmt októberskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru 20% íslenskra heimila tæknilega gjaldþrota, þ.e. skuldir eru meiri en eignir. Í raun má áætla að mun fleiri heimili séu í þessari stöðu því að enginn veit raunverð á fasteignum. Ætla má að það muni lækka á næstu missirum og ef ekki koma til leiðréttingar á skuldum heimilanna verða enn fleiri tæknilega gjaldþrota og jafnvel bara alveg gjaldþrota.

Við þekkjum öll þann algjöra forsendubrest sem varð við hrunið og hann bitnar auðvitað mest á þeim sem stækkuðu við sig húsnæði eða keyptu sína fyrstu íbúð á síðustu árum. Það er helst ungt barnafólk, fjölskyldur, sem lenti í því tjóni sem enn hefur ekki verið bætt að neinu leyti svo réttlætið nái fram að ganga. Ríkisstjórnin kvartar yfir því að stjórnarandstaðan væni hana um að hún hafi ekki verið að gera neitt og telur þá gjarnan upp á þriðja tug úrræða. Þau úrræði sem sett hafa verið fram eru að mörgu leyti ágæt, en í þeim felst ekki leiðrétting og þar með ekki réttlæti. Það verður að viðurkennast að það hefur orðið mun huggulegra að verða gjaldþrota en áður, en mér finnst ríkisstjórnin ekki gera nægilega mikið svo menn verði ekki gjaldþrota. Ef fólk á að vilja búa hér áfram, ungt barnafólk, verður það að finna réttlætið á eigin skinni og það gerist ekki nema skuldir heimilanna verði leiðréttar.