138. löggjafarþing — 101. fundur,  25. mars 2010.

lögskráning sjómanna.

244. mál
[18:11]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það eru ýmsir veikir hlekkir í því frumvarpi sem hér er til umræðu og hefur verið bent á þá í umræðunni. Það skiptir miklu máli að fara varlega í þessum efnum, að sjá fyrir hver útkoman er í þeim reglum sem settar eru og líka þeim reglum sem ekki eru settar. Gott dæmi um það er björgunarbúnaður báta undir 12 metrum að lengd.

Það er því miður þannig í dag að það hallar á ýmsa öryggisþætti í þjóðfélaginu, grunnþætti sem eru lykillinn að því að menn geti búið við öryggi sem ekki er falskt. Það hefur sýnt sig til að mynda, virðulegi forseti, að flatur niðurskurður getur ekki átt við suma þætti sem hann hefur verið látinn ganga yfir. Flatur niðurskurður getur ekki átt við Landhelgisgæslu Íslands. Landhelgisgæsla Íslands er útvörður Íslands, öryggisventillinn í ramma íslenska samfélagsins, landhelginni sjálfri, tekur varðstöðuna gagnvart öðrum þjóðum sem sækja inn í auðlindir okkar, sinnir öryggisþætti, björgunarþáttum bæði flugleiðis og sjóleiðis, en á þessu er að slakna, þetta er allt að slakna. Þetta má ekki slakna.

Á síðustu öld fórust 500 sjómenn við Vestmannaeyjar, 500 sjómenn á hundrað árum, fimm sjómenn á ári. Fyrir um 20 árum var gert átak. Áður vildi ég kannski nefna, virðulegi forseti, að 1940, 1945, hafði mönnum ofboðið svo þessi tíðu sjóslys og fórnir við að afla fjár fyrir þjóðina, afla fjár fyrir uppbyggingu Íslands og velferðarsamfélagið, menntakerfið, íslenska þjóðfélagið í heild, að menn tóku sig saman og höfðu frumkvæði að því að stofna til ýmissa þátta í auknu öryggi varðandi sjósókn. Þá komu gúmmíbjörgunarbátarnir inn. Menn efuðust fyrst þegar fyrsti báturinn var reyndur af vélbátnum Veigu frá Vestmannaeyjum, en svo kom í ljós að þessir bátar björguðu. Þeir brotnuðu ekki, eins og flekarnir sem voru um borð í bátunum, þeir björguðu. Síðan hefur verið samfelld þróun í þessu þangað til núna, að nú er farið að slakna á.

Fyrir 20 árum var gert átak að frumkvæði Alþingis að grípa í taumana og gera ráðstafanir í mörgum þáttum er lutu að öryggismálum sjómanna. Ég sat í nefnd á vegum Alþingis á þeim tíma, fimm manna nefnd, og við skiluðum 40 tillögum, 40 afgerandi tillögum í öllum þáttum er lutu að öryggi og voru taldir veikir. Allar þær tillögur voru framkvæmdar. Seinasti þátturinn í þessum tillögum var tilkoma þyrlutækninnar inn í flota Landhelgisgæslunnar. Það var mikið deilumál. Flestir eða margir vildu þá kaupa litlar þyrlur sem gátu ekki sinnt alvörubjörgun við Ísland. Við þekkjum dæmi við Vestfirði, við Reykjanes og víðar þar sem litlar þyrlur hefðu aldrei getað farið á vettvang.

En það skiptir öllu, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar áðan, að stöðugleiki sé í þessu. Það er lágmark, ef þessi stöðugleiki á að vera, að hafa tvær þyrlur. Í rauninni er lágmarkið þrjár þyrlur. En þegar menn vilja vera eins jákvæðir og hægt er og taka þátt í ákveðnum hlutum sem þarf að gera í samfélaginu er hægt að fallast á með mikilli útsjónarsemi að styðjast við tvær þyrlur um sinn.

Það er líka grundvallaratriði að Íslendingar eigi alvöruvarðskip. Það er senn tilbúið í Suður-Ameríku. Það verður mikill styrkur, svo fremi að það verði ekki bara bundið við bryggju. Þetta eru þættir sem kosta auðvitað peninga. Ef ég man rétt kostar um 1.700 milljónir að reka Gæsluna. Það mundi þurfa kannski milljarði meira til þess að reka hana með myndarbrag, ekki með glæsibrag heldur með myndarbrag. Þetta eru hlutir sem menn verða að taka tillit til þegar gengið er til leiks og sviðið skoðað í heild.

Á undanförnum fimm árum hefur dauðsföllum í sjóslysum fækkað niður í nánast núll. Á síðasta ári fórst einn maður í sjóslysi við Austurland. Þetta hefur gengið fram vegna mikillar elju, mikillar vinnu, mikillar fórnfýsi björgunarsveita og áhuga aðila um öryggismál, fylgni sjómannafélaganna, útgerðarmanna og allra sem koma að málinu. Þess vegna má ekki slaka á klónni.

Það er því miður svo, virðulegi forseti, að á undanförnum árum hefur það færst í aukana að þessi mál eru í æ ríkari mæli unnin sem pappírsvinna, sem skrifstofuvinna. Ég er ekki að deila á embættismenn eða skrifstofumenn landsins en þeir eru ekki aðilarnir sem hafa skilning á því hvar þarf að taka til hendinni, hvað má gera og hvað má ekki gera. Þeir hafa það bara ekki. Þetta lærist ekki af bók. Þó að þar sé um ágætt fólk að ræða sem er með allt að fimm háskólagráður, þá dugar það ekki til. Þarna verða menn að opna augun og kalla til reynslu þeirra sem gerst þekkja. Það eru ekki landkrabbarnir. Það eru ekki við, landkrabbarnir. Það eru þeir sem sækja sjóinn. Það eru þeir sem þekkja gerst til í náttúru landsins þar sem víða geta komið upp stöður sem kalla á hjálp og það er það sem skiptir svo miklu að haft sé í heiðri þegar menn forgangsraða.

Það er í rauninni sorglegt að vera núna með nýja flugvél Landhelgisgæslu Íslands, sem er með einhvern hinn besta tækjabúnað, a.m.k. í Evrópu, til margra þátta; í öryggismálum, landmælingum, sjómælingum og öðru sem skiptir máli fyrir eyþjóð eins og Íslendinga, það er ömurlegt að horfa til þess að þá vél þurfi að leigja úr landi um nokkurra mánaða skeið til að afla tekna inn í pakkann. Það verður vonandi ekki svo með hið nýja varðskip, að það fari sömu leið. Þá væri ugglaust miklu hyggilegra og auðveldara að leigja minni varðskipin til verkefna um stundarsakir til að brúa bilið í því sem menn neyðast til að gera, vil ég segja, og koma hlutunum á réttan kjöl og í ákveðinn farveg.

Það er þetta, virðulegi forseti, sem ég hygg að við þurfum að gæta að í miklu ríkari mæli. Það hefur slaknað á tengingunni og nýtingunni við grasrótina í landinu, í tengingunni við sjómenn sem starfa um allt land, tengingunni við menn sem starfa að mörgum þáttum ferðaþjónustu. Það hefur verið þokkaleg tenging við Landsbjörgu, stóru slysavarnafélagssamtökin, en samt eru mismunandi áherslur í þeim efnum og menn verða að vera klárir í að sú reynsla slitni ekki, þekking, þjálfun og metnaður sem byggst hefur upp á áratugum. Þess vegna gengur ekki að skera rekstur Landhelgisgæslu Íslands niður um 10%, það gengur ekki upp. Það er bara ekki hægt. Það er alltaf erfitt að líkja saman en maður getur alveg eins sagt og notað þá tölu: Af hverju ekki að skera niður 10% af opinberum starfsmönnum í ákveðnum geirum í þjónustukerfi landsins, þar sem er borð fyrir báru? Það er borð fyrir báru nema menn hangi endalaust í því hlutverki að verja áskrift að launum og tiltölulega litla vinnu, þó að hún sé líka nauðsynleg. Hver og einn í þessum geira reynir auðvitað að halda sínum hlut, halda sessinum sem hann situr í og hefur lífsbjörgina af, en þá verða stjórnvöld að þora að taka af skarið og velja áhersluna þar sem um er að ræða spurningu um líf eða dauða.

Það er engin spurning að fækkun dauðsfalla á sjó á undanförnum árum er vegna mikillar vinnu og mikillar kynningar. Það er ekki langt síðan Sæbjörg, skóli Landsbjargar, skóli sjómanna í öryggismálum var settur á stofn. Menn brostu í kampinn á sínum tíma þegar Slysavarnafélagið keypti gamla Þór á 50 eða 100 kr. en það skilaði sér. Til stóð að selja skipið á 500 kr. en ráðherra dómsmála þá, sem vissi lítið af undirbúningi þessarar sölu, tók mjög dræmt í það að fá bara 500 kr. fyrir skipið. Þá, virðulegi forseti, sagði hæstv. fjármálaráðherra þess tíma, Albert Guðmundsson, að það hefði líka verið talað um 1000 kr. Þá sagði dómsmálaráðherrann að hann vildi heldur fá 1000 kr. en 500 kr. Auðvitað er þetta broslegt en sýnir kannski hvað það er margt veikt í þessu, hvernig menn hugsa ekki, ekki einu sinni innan rammans, hvað þá út fyrir rammann.

Í öryggismálum sjómanna er svo mikið í húfi vegna þess að það verður kannski æ erfiðara að manna þennan flota, íslenska flotann, sem er lykillinn að íslensku samfélagi, sem veitir íslensku samfélagi um 60% af þeim tekjum sem samfélagið hefur. Það er grundvallaratriði. Við sjáum ekki fyrir í dag til að mynda, og það er hluti af þessum öryggisþætti, hver skipstjóraefnin verða á íslenska flotanum eftir 15 ár. Aðsóknin að skipstjórnarfræðum datt niður á einu ári, 1991, þegar hætt var að miða við að þeir sem ekki höfðu stúdentspróf gætu numið skipstjórnarfræði. Það datt niður og hefur ekki náðst upp síðan. Þeir sem fara núna í verklegt nám á þessum vettvangi, í gamla Vélskólann og Stýrimannaskólann sem var steypt saman, fara flestir í vélfræði til að vinna í landi. Ætlumst við til þess, Íslendingar, eða viljum við, án þess að nokkuð sé verið að lasta Kínverja, Formósumenn eða aðra, að þeir verði skipstjórar á íslenska flotanum eftir 15 ár? Í hvaða gildru erum við komin þá? Hvaða samfélag erum við þá að byggja upp ef við ræktum ekki þennan þátt sem er grundvöllur lífs okkar og samfélags?

Við skulum því ekki leika okkur að þessum fjöreggjum þjóðarinnar, þeim þáttum sem skipta ofurmáli í því að íslenskt samfélag geti haft trú á nútíð og framtíð og geti búið við aga í ákveðnum þáttum sem skipta svo miklu máli til að menn skili árangri og séu samfélagsvænir. Ef við ræktum þetta ekki dettum við út sem þjóð. Það er nóg hvernig slakað er á íslenskri tungu þó maður fari ekki að ræða það hér, það er nú nóg hvernig linkan er í því og eymingjaskapurinn. Fjölmiðlamenn í dag, margir, tala ekki mælt mál. Fjölmiðlamenn fyrir 20, 30 árum voru með í munni gullkornin sín. Þjóðin naut þess að hlusta á þá. Það væri hægt að nefna þá marga. Þetta hefur farið úr böndum eins og svo margt annað. Við skulum fara að huga að því á hvaða leið við erum í þessum þáttum sem lúta að grunnöryggi samfélags Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar.

Því var fagnað á sínum tíma þegar danskt varðskip kom með Flateyjarbók að hafnarbakkanum hér, eina bók pakkaða inn í maskínupappír. Ég var að velta því fyrir mér um daginn hvernig Flateyjarbók hefði verið pakkað inn í dag. Líklega með mörgum slaufum og plastblómum frá Tævan. Kannski er þetta breyting í tíðaranda, en í þessum efnum verðum við að rækta íhaldssemi. Þó að menn skyldu alltaf vera opnir fyrir því að gera breytingar og horfa fram hjá fordómum er sumt sem verður að festa sig eins og ankeri í botni, eins og ankeri sem svo margir þættir í þjóðfélaginu eru bundnir við. Bátafloti landsins er eitt, landsbyggðin, byggðirnar eru annað. Þær eru í þessu ankerisfesti sem er að skila Íslandi áfram og er eina raunhæfa verðmætið sem við getum byggt á inn í framtíðina þar sem verðmæti (Forseti hringir.) liggja á bak við hverja einingu, hvert kíló, hvert handtak.