138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er dapurlegt að verða var við þennan mikla misskilning vegna þess að skuldirnar sem þjóðin er að taka yfir eru einmitt Icesave, þar sem hæstv. ráðherra lúffaði fyrir erlendu valdi og samþykkti og mælti ekki eitt einasta orð, ég veit ekki enn þá hvaða afstöðu hann hefur til málsins. Hæstv. ráðherra talaði aldrei í umræðunni um Icesave. (Sjútvrh.: Víst.) Hann greiddi atkvæði með því að samþykkja það að taka yfir þessar gífurlegu skuldbindingar. Það var ekki fé án hirðis. Fé án hirðis er fé sem enginn á eins og í sparisjóðunum, það er allt annar handleggur og það fé er í góðum höndum á meðan þeir sem stýra því eru góðir menn. En um leið og einn skúrkur kemur þar inn þá er það ekki lengur í góðum höndum. Þess vegna þarf að vera mjög sterkt eftirlit með öllum sjálfseignarstofnunum og lífeyrissjóðum.

Hvernig er lýðræði í lífeyrissjóðunum háttað? Hverjir skyldu velja þá menn sem stýra því skipi, hverjir? Eru það sjóðfélagarnir? Ónei. Það er þetta sem ég talaði um sem fé án hirðis. En skuldir Íslendinga sem hv. þingmaður hefur tekið yfir og samþykkt, það (Forseti hringir.) er allt önnur Ella.