138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekkert skipt um skoðun í því að ef hér ríkir eðlilegt samstarfsandrúmsloft — og sú hefð getur þróast með farsælum hætti — geti stjórnarandstaðan átt meiri ítök í forustu þingsins og formennsku í þingnefndum í bland við stjórnarliða. (Gripið fram í: Þú … núna.) Ég hef á hverjum tíma alltaf verið tilbúinn til þess að upp á það væri boðið. Meðan ég var forustumaður í stjórnarandstöðu leitaði ég eftir því í hvert skipti sem samið var um slíkt, eftir að sá siður aflagðist upp úr 1999. Við buðum til að mynda Framsóknarflokknum bæði formennsku í þingnefndum og jafnvel forseta þingsins þegar minnihlutastjórnin var mynduð 1. febrúar 2009, en Framsókn hafði ekki áhuga á því og afþakkaði það. Stjórnarandstaðan hefur ekki endilega alltaf sjálf verið viljug til að hafa slíkt hlutverk með höndum. Veldur hver á heldur. Um þetta þurfa menn náttúrlega að ná saman. Það þurfa báðir aðilar að vilja stefna að því sem þar er unnið að.