138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[17:14]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að lýsa ánægju með það mál sem hér er fram komið og er búin að skoða ýmislegt sem kemur fram í skjalinu. Ég verð þó að segja að ég er svolítið hissa á greinargerðinni, mér finnst vera skautað svo létt yfir fortíðina í því. Það er aðeins tilgreint að árið 2005 hafi verið efnt til alþjóðlegrar skipulagskeppni og svo er sagt í upphafi að þetta verkefni um nýtt háskólasjúkrahús hafi verið í undirbúningi um nokkurt skeið. Síðan er farið til ársins 2009 og það sem gerst hefur í framhaldinu. Mér finnst eiginlega ótrúlega lítill texti um fortíðina. (Gripið fram í.) Já, kannski er það vegna þess að mönnum þyki vont að hafa mikinn texta, en mér finnst vanta á fortíðina hér í upplýsingagjöfinni af því að það er þannig að búið er að vinna að þessu máli alveg gríðarlega lengi, mjög lengi. Og svo ég taki bara síðustu hæstv. ráðherra og stjórnmálaflokka sem hafa komið að þessu máli þá er hæstv. heilbrigðisráðherra, Álfheiður Ingadóttir, að vinna í þessu máli. Þar á undan var það hv. þm. Ögmundur Jónasson sem tók líka ákvarðanir, jákvæðar ákvarðanir, í málinu. Þar á undan var það hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson úr Sjálfstæðisflokknum sem að vísu saltaði málið aðeins í fyrstu og það var gagnrýnt hér en kom því síðan í gang aftur og tók réttar ákvarðanir. Þar á undan var það sú er hér stendur úr Framsóknarflokknum. Þarna hafa komið að þrír stjórnmálaflokkar með beinum hætti og síðan hefur Samfylkingin líka lýst sig hlynnta þessari framkvæmd.

Við höfum verið meira eða minna sammála um það í lengri tíma að fara í þetta verkefni, vorum búin að undirbúa það mjög lengi, enda er þörf á því að byggja þennan spítala, þennan nýja spítala. Ég vil taka undir það sem kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra að það þarf að taka þessa ákvörðun, það þarf að taka hana þó að tímar séu hér erfiðir.

Það var búið að finna form sem á að ganga upp. Við höfum verið með smáskammtalækningar hin síðustu ár á Landspítalanum, ekki í læknisfræðilegum skilningi heldur byggingarlega, að það er alltaf verið að bjarga einhverjum málum, setja gám út í garð og byggja pínulítið við þetta húsið og hitt. Þetta gengur ekki lengur, virðulegur forseti, nú þarf að fara í að byggja nýja spítalann.

Það er ekki rétt sem kom fram áðan að lappa eigi upp á einhverja gamla steypu. Það er einmitt verið að reyna að hindra það að við þurfum að lappa upp á gamla steypu. Það á reyndar að nýta þann skásta húsakost sem er, sumt af honum er nýtt. Ég vil nefna að barnaspítalinn er nýr, hann var opnaður árið 2003. Sú er hér stendur var bæði í dómnefnd spítalans og byggingarnefndinni, það er því nýtt og glæsilegt hús. En svo á að taka úr umferð gamla steypu, það er alls ekki verið að lappa upp á gamla steypu, þvert á móti, það á að byggja þarna nýtt en nýta þó það sem hægt er að nýta og er í góðu standi og er fyrir.

Það hefur fyrir löngu síðan verið skoðað hverju er hægt að hagræða með því að byggja nýjan spítala. Menn hafa skoðað það líka erlendis. Það er þumalputtaregla sem segir að hægt sé að hagræða um 10–15% í rekstri sjúkrahúss með því að byggja nýtt, þannig að það mæti þeim kröfum sem eru uppi ef menn taka það gamla úr umferð. Ef þetta stenst hjá okkur, sem ég hef engar efasemdir um, er hægt að spara milljarða. Það er í raun reksturinn sem er verið að spara. Auðvitað kostar að koma byggingunni upp en reksturinn verður hagkvæmari en það er reksturinn sem kostar svo mikið í heilbrigðisþjónustunni. Það er ekki byggingarkostnaðurinn, hann er eiginlega nánast aukaatriði þó þetta séu háar tölur, en reksturinn er aðalatriðið. Byggingarnar eru bara einhvers konar skel, kosta talsvert í upphafi en síðan er það reksturinn sem árlega hleðst upp sem er stóra málið í þessu, virðulegur forseti.

Með því að hefja byggingu nýs Landspítala – háskólasjúkrahúss tel ég að við séum að fara í lokahnykkinn á sameiningu spítalanna. Hér voru spítalar á fyrri tíð. Borgarspítalinn var sérstök eining og svo er það Landspítalinn og Landakotsspítali, svo ég nefni þessa sem voru hér í Reykjavík. Þeir voru sameinaðir og það var mikið deilumál. Það er ekki hægt að segja að sameining verði til fulls fyrr en við erum búin að byggja upp nýja aðstöðu á einum stað. Það er búið að rífast lengi um hvar slík aðstaða ætti að vera og nú er búið að taka þá ákvörðun að hún eigi að vera í Vatnsmýrinni.

Erlendis hafa menn verið að reikna út hvað þurfi mikið upptökusvæði fyrir svona hátæknisjúkrahús svokallað. Þar er ekki verið að tala um 300 þúsund manna upptökusvæði, það er miklu meira, oft er talað um 700 þúsund manna upptökusvæði. Það að við skulum geta haldið úti glæsilegum hátæknispítala hér til framtíðar er auðvitað frábært. Það kostar auðvitað mikið og það er reksturinn sem er sá dýri.

Það er rétt sem kom hér fram að vannýtt húsnæði á höfuðborgarsvæðinu sé að vissu leyti í spítalarekstri. Það hefur verið skoðað m.a. vegna umræðu um skurðstofur, vannýttar skurðstofur. Þetta var skoðað sérstaklega fyrir mig fyrir stuttu síðan. Mig langar að nefna að á höfuðborgarsvæðinu er 31 skurðstofa og að jafnaði eru 23 þeirra nýttar. Það þýðir að átta skurðstofur eru vannýttar. Á sama tíma erum við að tala um að byggja upp nýjar skurðstofur. Þetta er auðvitað svolítið sérstakt að skoða hlutina út frá þessu. Sú er hér stendur getur alveg eins spurt vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið: Er eitthvert vit í því að fara að byggja upp nýjar skurðstofur t.d. í Reykjanesbæ? Þar eru vannýttar skurðstofur nú þegar. Það er líka þannig á sjúkrahúsinu á Suðurlandi, Heilbrigðisstofnun Vesturlands og á Landspítalanum. Það eru vannýttar skurðstofur á Landspítalanum líka. Þetta þarf að hafa í huga, virðulegur forseti.

Það er eitt sem mér finnst svolítið óþægilegt í þessu máli, en maður verður kannski að viðurkenna staðreyndir, það er það að lífeyrissjóðirnir ætla að koma að þessari byggingu, fjármagna hana og síðan á að taka bygginguna á langtímaleigu að loknu útboði. Þetta finnst mér svolítið óþægilegt en auðvitað verður þetta að vera svona, virðulegur forseti, af því að að sjálfsögðu verða lífeyrissjóðirnir að fá sína peninga til baka. Það kemur fram í kostnaðarmati frá fjármálaráðuneytinu, ég ætla að vitna í það, með leyfi forseta, en þar kemur fram:

„Gert er ráð fyrir að sú hagræðing sem nýr spítali og sameining hans á einum stað gefur kost á muni mynda svigrúm hjá Landspítala til að standa undir leigugreiðslum. Miðað er við að leigusamningur verði til langs tíma og að honum loknum flytjist eignarhald fasteignanna yfir til ríkisins.“

Það er kannski ljósið í myrkrinu varðandi þessa aðferðafræði að meiningin er að ríkið eignist síðan spítalann að lokum sem ég held að sé frekar æskilegt með stofnun af þessu tagi þegar búið er að borga upp leigu til langs tíma, þannig að allir fá sitt að lokum.

Hér hefur verið sagt, virðulegur forseti, að þessi nýja bygging sem á að fara að byggja, eða þessi nýi áfangi, það á auðvitað ekki að klára þetta allt í einum rykk, sé fyrir einhverja háskólakennara og nemendur. Það er auðvitað ekki rétt, eins og hann sé ekki fyrir sjúklinga. Hann er fyrir sjúklinga, hann er að sjálfsögðu fyrst og fremst fyrir sjúklinga þó að þarna fari fram kennsla. Á Landspítalanum sem er okkar stærsta sjúkrahús liggja veikustu sjúklingar landsins. Þar er líka boðið upp á sérhæfðustu og viðkvæmustu og flóknustu þjónustuna í heilbrigðiskerfinu, þetta er gríðarlega mikilvæg stofnun. Ég skoðaði lykiltölur, ég er reyndar ekki með lykiltölur fyrir síðasta ár heldur fyrir 2008 sem sýna að yfir 100 þúsund sjúklingar leituðu til sjúkrahússins. Það er ansi há tala og stór hluti af þjóð okkar. Þar voru framkvæmdar tæplega 14.600 skurðaðgerðir. Yfir 123.000 myndgreiningar fóru fram. Fæðingar voru tæplega 3.400. Það er alveg gríðarlega mikil þjónusta sem fer fram innan veggja Landspítalans enda er Landspítalinn stærsti vinnustaður landsins. En við erum að byggja hann fyrir sjúklingana þó að sjálfsögðu bæði kennarar, nemendur og allir starfsmenn sem þarna eru fái betri aðstöðu. Það vinna samkvæmt þessum tölum yfir 5.000 manns á Landspítalanum í tæplega 4.000 stöðugildum. Þetta er því stærsti vinnustaður landsins. Þetta er alveg gríðarlega mikilvægur vinnustaður sem veitir afar mikilvæga þjónustu. Ef heilbrigðisþjónustan er ekki góð í landinu er eitthvað mikið að, mundi ég segja.

Ég vil líka draga það fram, virðulegur forseti, af því að nú er mikið talað um traust í samfélaginu, að hægt er að rífa niður traust á stofnunum eins og ekkert sé með neikvæðri umræðu. Sjúkrahúsþjónusta er viðkvæm, það er viðkvæm þjónusta sem fer fram þar innan dyra. Það er hægt að eyðileggja traust á svona stofnun ef menn vilja en það hefur enginn viljað það sem betur fer enda á stofnunin það ekki skilið. Hún mælist í mjög góðu trausti. Miðað við þær tölur sem ég hef skoðað hefur Landspítalinn verið að mælast í 90% trausti í þeirri könnun sem ég skoðaði. Það ber vitni um að fólk veit að það fær góða þjónustu.

Ég vil líka vitna í skoðanakannanir Gallups, þ.e. þjóðarpúlsinn sem er gerður árlega á vorin, mars/apríl, hann er gerður árlega, þar er mælt viðhorf til trausts hinna ýmsu stofnana samfélagsins. Alþingi mælist í sögulegu lágmarki í augnablikinu, en það eru þrjár stofnanir sem skera sig úr hvað varðar traust og mælast í miklu trausti, háu trausti, það er lögreglan sem mælist efst í trausti núna, hefur mælst næstefst hin seinni ár, í öðru sæti er Háskóli Íslands sem mælist í öðru sæti núna en hefur mælst í fyrsta sæti hin seinni ár. Í þriðja sæti er heilbrigðiskerfið. Það er nokkuð merkilegt. Það er mjög gott að mínu mati að það mælist svona hátt traust til heilbrigðiskerfisins. Það er mitt mat að Landspítalinn, sem er auðvitað flaggskipið í heilbrigðisþjónustu okkar, á mikið inni í þessari traustsmælingu. Það er því alveg ljóst að Landspítalinn hefur staðið sig ótrúlega vel í þjónustu sinni og ætlar að gera það áfram. Því er um að gera að taka þessa ákvörðun núna og hefja verkið.

Miðað við núverandi kost má færa rök fyrir því, maður má nú alls ekki dramatísera þetta sem er sagt hérna en ég vil samt segja það að miðað við núverandi ástand spítalans, að öryggi sjúklinga gæti verið betra. Þá er verið að vísa til þess að það þarf að byggja upp nýjan húsakost. Það þarf að hindra það að sýkingar nái sér á strik innan þessa spítala. Þetta er verið að skoða um allan heim, menn eru að berjast við sýkingar. Þess vegna er mikilvægt að hefjast handa við þetta verk.

Ég er eindreginn stuðningsmaður þess að við hefjum byggingu nýs Landspítala, tökum þennan áfanga. Mér þykir auðvitað vont og leitt að við skulum ekki hafa efni á því sjálf, ríkið hafi það ekki, en það er auðvitað vegna efnahagsástandsins sem hér er í landinu og ég hef alla vega hingað til viljað líta svo á að allir flokkar hafa stutt þetta verkefni. Ég vona að svo verði áfram.