138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

störf þingsins.

[12:15]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst taka undir með þeim hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni og Vigdísi Hauksdóttur að í ljósi rannsóknarskýrslunnar er mikilvægt að við tökum þessa umræðu algerlega heildstætt og allt sé þá rætt og allt undir og ef þarna eru upplýsingar um eitthvað sem misræmi er í þá er um að gera að klára það.

Ég vil einnig taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal sem hvatti til þess að gerð yrði neyðaráætlun vegna afleiðinga gossins undir Eyjafjallajökli. Ég sé að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er mættur í salinn og ég treysti því að hann muni upplýsa um þá vinnu sem fer fram á vegum ríkisstjórnarinnar. Hugur okkar allra er að sjálfsögðu hjá íbúum þessa svæðis, hjá björgunarfólki, almannavarnafólki, lögreglu og öllum þeim fjölmörgu sem eru að vinna þrekvirki, t.d. starfsmönnum Suðurverks sem unnu þrekvirki við að rjúfa skarð í veginn, eins og okkur er öllum kunnugt um. Ég tel nauðsynlegt, eins og hefur verið nefnt af öðrum þingmönnum úr þessum ræðustól, að við tökum þetta mál á dagskrá þingsins strax og best væri að það væri gert í dag eða strax eftir helgi þegar þing kemur saman hvort sem umræðan verður utan dagskrár eða sett á dagskrá, t.d. í formi skýrslu frá annaðhvort hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra sem fer með almannavarnamál.

Ég held að nauðsynlegt sé að við förum vandlega yfir það hvað þarna er að gerast. Afleiðingar þessa goss eru hrikalegar nú þegar og við sjáum að við lifum ekki í einangrun hér á norðurhjara þegar kemur að þessu. Þetta hefur ekki bara áhrif á okkur heldur eru áhrifin eins og allir vita víðtæk úti um alla Evrópu þannig að ég hvet hæstv. forseta til að beita sér fyrir því að setja umræðu um eldgosið og afleiðingar þess á dagskrá þingsins (Forseti hringir.) á þriðjudaginn.