138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[22:51]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég endurtek það sem ég sagði áðan að ég treysti mér ekki til að fullyrða neitt um hversu mikið er til af gögnum aftur í tímann en hef svo sem enga ástæðu til að draga í efa þá niðurstöðu eða fullyrðingu þingmannsins að þau séu veruleg.

Það er alveg rétt að hérna togast að einhverju leyti á persónuverndarsjónarmið og þau sjónarmið að það séu ríkir almannahagsmunir að hægt sé að upplýsa um stöðu mála, í þessu tilfelli skuldastöðu heimila. Ég get kannski komið með þá stuttu sögu í lokin að við undirbúning þessa máls hefur komið í ljós að hér á árum áður, ég veit ekki nákvæmlega á hvaða árabili en þá var heimurinn miklu einfaldari, hafði einn maður á Þjóðhagsstofnun aðgang að nánast öllum persónugreinanlegum gögnum sem til voru í hinu opinbera kerfi. Honum var bara treyst og hann stóð undir því trausti og það urðu aldrei nein vandamál. En það fyrirkomulag fullnægir ekki kröfum nútímans.