138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[23:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom með lausnina að því hvernig við getum lokað þessum hring. Við skellum fjárhagslega gagnagrunninum og rafrænu sjúkraskránni saman og þá erum við með á einhverju gígabæti allar upplýsingar um íslensku þjóðina og hvern og einn Íslending. Ég held að stóra einstaka málið sé þetta: Af hverju erum við að þessu? Við erum væntanlega að þessu til að fá upplýsingar til að geta bjargað heimilunum. Er það nauðsynlegt? Við erum öll meðvituð um hætturnar. Við getum endalaust deilt um það hvort hægt sé að brjóta þennan dulkóðunarlykil eða ekki en við erum að safna þessum upplýsingum saman á einn stað.

Af því að hæstv. ráðherra ræddi um það, sem er alveg rétt, að alls kyns og allra handa upplýsingar eru úti um allt, þá er alls kyns og allra handa misnotkun líka úti um allt. Það sem menn eru að eltast við í gegnum tölvur og kortanotkun og annað slíkt er neyslumynstur fólks og síðan elta þeir það með auglýsingum og öllum þessum þáttum. Þetta er ein af þeim ógnum sem steðja að okkur. Sumir stjórnmálamenn eru bara miklu stjórnsamari en aðrir og þegar þetta er komið á einn stað, kemur þá eitthvað í veg fyrir að menn fái fleiri „góðar“ hugmyndir í tengslum við þetta? Hér er lagt upp með góðan ásetning en þegar maður er kominn með svona tæki þá er hægt að gera allt milli himins og jarðar með það og ég er ekki viss um að hv. þingmaður vilji bera ábyrgð á því öllu saman ef það versta mundi gerast í nánustu framtíð. (Forseti hringir.)