138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[23:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er það sem við stöndum alltaf frammi fyrir, að vega og meta kosti og ókosti þessa mikla gagnamagns. Það er dálítið undarlegt að við þingmenn séum stöðugt að rífast um hver vandinn sé. Sumir hafa sagt að helmingur heimilanna í landinu sé gjaldþrota og aðrir segja að nánast enginn sé gjaldþrota. Svo er rifist um þetta endalaust. Menn eru samt sem áður að rífast um staðreynd en hún fæst ekki upp á yfirborðið.

Ég held að við þurfum að vega þetta og meta og ég met það svo að það sé betra að hafa upplýsingarnar og treysta þá á persónudulkóðunina. Við erum með mjög mikið af upplýsingum nú þegar og ég held að allt það sem átti að fara inn í upplýsingagrunn Íslenskrar erfðagreiningar á sínum tíma sé komið á einn stað nú þegar, þ.e. inn í þessar sjúkraskrár heilbrigðisstofnananna þannig að alls konar þróun er að verða. Við heimilum bönkunum að afhenda skattstjóra upplýsingar um vexti. Það breytti heilmikið stöðu margra sem höfðu „gleymt“ að telja vextina sína fram til Tryggingastofnunar þar sem þeir koma til frádráttar bótum. Svona erum við að búa til kerfi. Það er verið að tala um það í sambandi við bílana að setja upp GPS-kerfi til að láta þá borga notkun á vegum, afskaplega sniðugt, lækkar kostnað við innheimtu mikið, t.d. á Hvalfjarðargöngunum og gerir þau nánast ókeypis og eins bílastæðiskostnað og alls konar slíkt. Það hefur þann kost að hver einasti maður veit hvar bíllinn er, líka eigandinn. Það er ekki hægt að stela bílnum eftir það. Það verður engum bíl stolið eftir það af því að eigandinn fer bara á netið og getur flett upp hvar bíllinn hans er staðsettur og hann nær í hann. Þannig að það eru kostir og gallar og menn þurfa að vega það og meta.