138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

forvarnir gegn einelti.

435. mál
[14:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Á yfirstandandi skólaári standa samtökin Heimili og skóli fyrir átaki gegn einelti. Þegar átakinu var ýtt úr vör með kynningu nýs fræðsluheftis var nokkuð fjallað um það í fjölmiðlum. Fræðsluheftið er gott til að auka þekkingu á einelti og hjálpa foreldrum að öðlast betri skilning á líðan barna sinna og fyrir framtakið ber að þakka. Fjölmiðlar hafa fjallað um málefnið og vakið athygli á þeim skelfilegu afleiðingum sem langvarandi einelti getur haft. Talið er að um 5.000 grunnskólabörn séu lögð í einelti á hverju ári hér á landi. Rannsóknir sýna að líkur eru á að einelti aukist í kjölfar kreppu og bágs efnahags og í því ljósi er átakið enn mikilvægara en í venjulegu árferði, þó að alltaf sé einelti grafalvarlegt og ofbeldi sem aldrei á að líða.

Það er nauðsynlegt að skerpa á umræðu um alvarlegar afleiðingar eineltis reglulega, vera vel á verði gagnvart ofbeldinu og taka á málefnum gerenda jafnt sem þeirra sem fyrir eineltinu verða. Lausn eineltismála þarf að fara í ákveðinn farveg innan hvers skóla fyrir sig.

Innleiðing Olweusar-áætlunarinnar í íslenska grunnskóla á liðnum áratug var mikilvægt skref í baráttunni gegn einelti. Stóð grunnskólum til boða að nýta sér aðferðafræði sem reynst hefur vel í öðrum löndum. Áhersla var lögð á að aðferðin væri hluti af árlegri starfsáætlun skóla.

Svo umbótaverkefni skili árangri til framtíðar þarf að viðhalda þeim, m.a. með endurmenntun og þjálfun starfsfólks. Endurmenntun í vinnu Olweusar-áætlunar meðal starfsfólks skóla þarf að vera markviss. Einnig þarf að vera ljóst ef skólar vilja ekki taka upp aðferðina hvaða aðrar aðgerðir í forvarnarskyni og meðferð eineltismála séu nýttar. Ef þekktar eru aðferðir sem ætla mætti að skili betri árangri en Olweusar-áætlunin eða yrðu góð viðbót við hana er mikilvægt að því sé komið á framfæri við skólastjórnendur og aðra sem starfa með börnum. Krafan hlýtur að vera sú að allir sem starfa með börnum, svo sem innan skóla, íþróttafélaga og frístundaheimila, séu meðvitaðir um að ef ekki er tekið á einelti með árangursríkum hætti leiða málin oftar en ekki til heilsufarsvandamála og vanlíðanar fórnarlamba langt fram eftir ævi.

Ég vil því spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort árangur þeirra fjölda skóla sem innleiddu Olweusar-áætlunina á sínum tíma hafi verið metinn og hvort fylgst sé með því að forvarnarverkefninu sé viðhaldið?