138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

forvarnir gegn einelti.

435. mál
[14:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga efni og tek undir það að framtak Heimilis og skóla er þarft og hefur vakið verðskuldaða athygli.

Hvað varðar fyrirspurnir hv. þingmanns um árangursmat á innleiðingu Olweusar-áætlunarinnar er það svo að mennta- og menningarmálaráðuneytið fól Námsmatsstofnun árið 2008 að meta árangur af Olweusar-áætluninni gegn einelti sem hafði verið innleidd í fjölda grunnskóla allt frá árinu 2002. Áætlunin var rekin sem samstarfsverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands og Heimilis og skóla. Stofnuninni var falið að kanna hvort dregið hefði úr einelti í skólunum, hvort Olweusar-áætlunin hefði náð að festa sig í sessi í skólunum og enn fremur að gera tillögur um áframhaldandi vinnu gegn einelti í grunnskólum. Úttektin átti að byggja á fyrirliggjandi tölfræðigögnum og viðtölum við framkvæmdastjóra og verkefnisstjórn. Rætt var við þátttakendur í 13 skólum.

Námsmatsstofnun skilaði skýrslu til ráðuneytisins í desember 2008 sem byggðist á atvinnu- og gagnasafni verkefnisins frá 2005–2007, sem Þorlákur Helgason framkvæmdastjóri þess lét stofnuninni í té, og enn fremur á mælingum Námsmatsstofnunar á einelti í úrtaki skóla og viðtölum við aðstandendur Olweusar-áætlunarinnar í nokkrum skólum.

Niðurstöður stofnunarinnar á mælingum úr gagnasafni verkefnisins benda ekki til þess að einelti hafi minnkað að ráði að meðaltali í þeim skólum sem þátt tóku öll þrjú árin, en einn liður í Olweusar-áætluninni eru árlegar mælingar á einelti í þátttökuskólunum. Þetta stangast á við niðurstöður frá fyrsta ári áætlunarinnar sem sýndu mikinn árangur hjá þeim skólum sem hófu innleiðingu áætlunarinnar 2002. Hins vegar kemur fram í úttektarskýrslunni að í viðtölum við aðstandendur verkefnisins í skólum er mikil ánægja með þann stuðning sem verkefnið hefur frá framkvæmdastjóra þess hér á landi og margir telja slíkt nauðsynlegt til þess að halda við þekkingu og hvatningu í einstökum skólum.

Í verkefnisstjórn Olweusar-áætlunarinnar var í kjölfarið rætt um að til að mat á árangri yrði sem markvissast þyrfti að meta framkvæmdina í einstökum skólum, a.m.k. úrtaki skóla og meta raunverulega virka viðbragðsáætlun. Einnig þyrfti að meta skólabrag almennt í skólunum og reyna að átta sig á því hversu mikil áhrif Olweusar-áætlunin hefur á almennan bekkjarbrag, líðan nemenda og skólabrag almennt, öryggi starfsfólks til að taka á málum, ánægju foreldra með skólann og færni kennara og stjórnenda.

Áttatíu grunnskólar hafa innleitt þessa áætlun og um helmingur allra grunnskólanemenda í landinu stundar þar nám. Ráðuneytið hefur fylgst með þessu verkefni. Sérstök verkefnisstjórn samstarfsaðila stýrði Olweusar-verkefni frá 2002–2008 eins og ég sagði áðan og stuðlaði að innleiðingu þess. Í framhaldinu var talað um að verkefnið gæti lifað áfram sjálfstætt og aflað fjár úr opinberum sjóðum eða á grundvelli verksamninga við skóla og sveitarfélög. Allir samstarfsaðilar voru á því að verkefnið ætti fullt erindi hér á landi og mennta- og menningarmálaráðuneytið studdi árið 2009 við rekstur áætlunarinnar og hyggst halda óbreyttum stuðningi við hann á þessu ári. Að auki leggja sveitarfélög þátttökuskóla fram fjármagn til innleiðingar og rekstraráætlunarinnar.

Ráðuneytið fylgist með áætluninni og fær árlega upplýsingar um einelti í þátttökuskólunum. Á þessu skólaári teljast um 70 grunnskólar vera virkir Olweusar-skólar en næsta haust bætast nokkrir skólar við.

Í fyrrasumar fór af stað vinna milli menntamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis um hvernig við getum samþætt aðgerðir gegn einelti því að einelti fyrirfinnst vissulega ekki bara í skólakerfinu. Það fyrirfinnst á vinnustöðum og í raun og veru alls staðar þar sem fólk starfar eða nemur saman. Í framhaldinu hefur samstarfshópur þessara ráðuneyta verið starfandi og mun líklega á næstu vikum skila tillögum um hvað betur megi gera. Ef ég lít sérstaklega til þess sem lýtur að skólastarfi er mjög mikilvægt að farvegur eineltismála sé skýr, þ.e. að foreldrar eða nemendur geti vísað eineltismálum til skólastjórnenda ef ekki er unnt að leysa málin innan skólasamfélagsins, þá sé hægt að leita til sérfræðiþjónustu sveitarfélags og ef ekki tekst að leysa málin á þeim vettvangi verði hægt að leita til sérfræðingateymis þess sem leitt er af ráðgjafa eða verkefnisstjóra. (Gripið fram í.)

Við höfum enn fremur skoðað hvernig við getum tekið á því í reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga að leggja þarf meiri áherslu en áður hefur verið á aðstoð við skólafólk og foreldra við að móta öflugt og kærleiksríkt námssamfélag í skólunum.

Að lokum langar mig að nefna það sem hv. þingmaður kom inn á í sínu máli, þ.e. þróun kennaramenntunar og námskráin, hvernig getum við tekið á (Forseti hringir.) eineltismálum og viðbrögðum við þeim, bæði í endurmenntun kennara og að á þessu sé tekið í námskrá.