138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

skeldýrarækt.

522. mál
[20:01]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þessi svör svo langt sem þau ná. Ég held að það sem lýtur að skipulagsþætti málsins standist ekki heilnæmiskönnun núgildandi skilnings sveitarstjórna á skipulagsvaldi sínu, því að það er óumdeilt að eins og þetta hljóðar hér hefur ráðherrann einfaldlega skipulagsheimildina og hún tekur meira að segja inn yfir það 115 metra stórstraumsfjöruborð sem afmarkar núverandi skipulagsmörk sveitarfélaga. Engu að síður held ég að engum blandist hugur um það að koma þarf betri skikk á þetta, en þarna er ákveðin þversögn í þessum efnum.

Varðandi heilbrigðisnefndirnar og það sem ég nefndi hér sérstaklega, þá hefur nokkur umræða verið um þetta framsal verkefna frá Umhverfisstofnun sem hefur tengst m.a. erindum sem rekin hafa verið af Heilbrigðiseftirliti Austurlands. Í þessu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir aðkomu heilbrigðisnefnda með þeim hætti sem ætla mætti, því að þeim er einfaldlega ekki ætlað neitt hlutverk við eftirlit og umsögn varðandi þá starfsemi sem hér er verið að reyna að færa í lög.

Ég hefði viljað inna ráðherrann eftir afstöðu hans. Hæstv. ráðherra, hver er afstaða þín til þess að framsalsheimild Matvælastofnunar til viðkomandi heilbrigðiseftirlits úti á svæðunum verði sett inn í þann frumvarpstexta sem hér liggur fyrir, hver er afstaða hæstv. ráðherra til þess máls?

Ég spyr einnig varðandi heilnæmiskönnunina ef ég fylgi því aðeins eftir: Má ætla, miðað við ákvæði 9. gr. eins og frumvarpið hljóðar hér, að á grunni þessarar óskilgreindu heilnæmiskönnunar verði tiltekin leyfi sem nú þegar eru fyrir hendi og rekstur afturkallað? Ef svo er, ítreka ég enn og aftur þörfina á því að skilgreina betur (Forseti hringir.) í frumvarpinu eða í meðferð nefndarinnar þær kröfur sem gerðar eru til hinnar svokölluðu heilnæmiskönnunar.