138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

ríkisfjármál og samstarf við AGS.

[12:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Nú hefur komið í ljós að það stefnir í 100 milljarða kr. halla á fjárlögum þetta árið og eins höfum við séð að sá skattur sem menn hafa áætlað skilar sér illa. Við síðustu áramót voru, ef ég man rétt, 112 milljarða kr. vangreiddir skattar frá fyrirtækjum. Sýnir þetta okkur ekki enn eina ferðina hversu alvarlegt ástand efnahagsmála er og þar af leiðandi hversu mikilvægt er að efnt sé til aukins samstarfs og samráðs um úrlausn þeirra mála? Þess vegna þykir mér undarlegt hvernig ríkisstjórnin hefur í raun stöðugt fjarlægst stjórnarandstöðu, nú síðast með því að segja skilið við hana í Icesave-málinu og senda frá sér yfirlýsingu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sú yfirlýsing er reyndar dálítið sérkennileg í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra var búin að marglýsa því yfir að það væri fráleitt að tengja saman málefni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Icesave-deiluna. Hvernig stendur þá á því að hæstv. forsætisráðherra undirritar þessa yfirlýsingu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem gengur miklu lengra en fyrri yfirlýsing, yfirlýsing sem í raun var ekki undirrituð af forsætisráðherra þess tíma heldur einungis fjármálaráðherra og seðlabankastjóra? Nú kemur hæstv. forsætisráðherra til leiks og sendir yfirlýsingu sem gengur miklu lengra.

Svo bárust í framhaldi af þessu þau svör að það mundi losna um einhver lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem hægt væri að nota til að halda uppi gengi krónunnar og raunar væru menn þá líka búnir að skuldbinda sig til að ráðast ekki í frekari aðgerðir til aðstoðar íslenskum heimilum eftir október á þessu ári. Ber þetta ekki allt að sama brunni? Við erum að festast í hefðbundinni alþjóðagjaldeyrissjóðsgildru þar sem lán frá sjóðnum verða notuð til að halda uppi gengi gjaldmiðilsins um ákveðinn tíma á meðan þeir sem sitja fastir losa peningana sína út. Eftir situr íslenskur almenningur með skuldirnar.