138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

þróunarsamvinnuáætlun.

584. mál
[12:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir áhuga hennar á þróunarmálum og þróunarsamvinnu. Hv. þingmaður hefur alltaf beitt sér dyggilega í þágu slíkra verka hér á hinu háa Alþingi og haldið bæði þingi og sínum flokki vel við efnið. Hv. þingmaður gat þess réttilega að gerð hefði verið ákveðin bót á lögum að því er varðar þróunarsamvinnuáætlunina, ég er sammála henni um það.

Að öðru leyti vildi ég nota ferðina til þess að segja að það er mjög margt í þeim lögum sem ég er ósammála. Ég tel að það séu lög sem utanríkismálanefnd í samvinnu við utanríkisráðherra þurfi að taka til endurskoðunar í ákveðnum afmörkuðum en þó nokkuð veigamiklum atriðum.

Að því er varðar innihald áætlunarinnar sem hv. þingmaður spyr um veit hún það af langri reynslu og kynnum af utanríkisráðherra að þar er ekki lengur neinn byltingarsinni á ferð þannig að það er engra byltinga að vænta frá fyrri stefnu í þessum efnum. Þar er sú stefnumörkun sem verið hefur við lýði nánast óbreytt, þ.e. áherslurnar eru hinar sömu á tiltekin tvíhliða verkefni í Afríku, á áherslur sem varða bættan hag kvenna í tilteknum hlutum heimsins og mætti lengi áfram telja um það.

Um líðan þessarar áætlunar er það að segja að hún er bara í bærilegu standi. Eins og hv. þingmaður sagði er það lagaskylda að leggja fram annað hvort ár áætlun til fjögurra ára. Sú áætlun verður lögð fram í haust af minni hálfu. Hún liggur hins vegar fyrir í drögum af hálfu ráðuneytisins. Hafinn var strax á síðasta ári undirbúningur að því að vinna hana innan ráðuneytisins. Þá voru settir upp tveir óformlegir vinnuhópar sem voru samsettir af starfsmönnum ráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar. Annar fjallaði aðallega um áherslusvið og markmið og hinn um samstarfsaðila en einnig framkvæmd. Þessu var skilað til mín í drögum í febrúar. Ég óskaði síðan eftir því að það yrði sent út til ákveðinna aðila sem tengjast ráðuneytinu, m.a. tiltekinna sendiráða og fastanefndar til þess að fá þeirra álit. Síðan hafa þau drög verið örlítið breytt og er búið að senda þau út, sennilega fyrir tveimur, þremur vikum, til þróunarsamvinnunefndar sem lögum samkvæmt á fyrst að fjalla um þau. Það er nú sérkennilegur skapnaður sem þingið skaut inn í þessi lög á sínum tíma forustulaust og hefur ekki stórt hlutverk. Þar er þetta núna til umfjöllunar, ég held að fundur verði 10. maí. Þegar umfjöllun lýkur verður málið sent til þróunarsamvinnuráðs.

Af því að formenn Framsóknarflokksins hafa komið til umræðu hér í dag er rétt að geta þess að formaður þróunarsamvinnuráðs er einmitt undir forustu eins af hinum mörgu fyrrverandi formönnum Framsóknarflokksins, fyrrverandi utanríkisráðherra Valgerðar Sverrisdóttur.

Svona er staðan því núna. Núverandi tímarammi gerir ráð fyrir því að á miðju sumri verði þetta tilbúið og hugsanlega breytt eftir það lögbundna samráð sem á að hafa við ráðið og nefndina og að ég leggi að síðan fram hér í haust.

Það er auðvitað kreppa í landinu. Við þurfum eigi að síður að rísa undir ákveðinni alþjóðlegri ábyrgð. Við höfum pólitískum og siðferðislegum skyldum að gegna á alþjóðasviðinu. Það er engin launung að það hefur reynst nauðsynlegt að draga úr framlögum til þessa málaflokks meira en manni þykir oft gegna góðu hófi. Samt er ég pínulítið stoltur af því að jafnvel á þessu ári, þar sem hæstv. fjármálaráðherra hefur verið að sigla í gegnum hvern brimskaflinn á fætur öðrum, þó með dyggri aðstoð sumra á planinu, hefur eigi að síður tekist að halda framlögum sem hlutfalli af landsframleiðslu hinu sama og það var á því margfræga og jafnvel alræmda ári Íslandssögunnar, 2007.