138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

þróunarsamvinnuáætlun.

584. mál
[12:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra svörin. Ég vil vegna orða hans hér undir lok ræðunnar minna okkur öll á að það er kannski ekki að ástæðulausu að hlutfallið helst vegna gengis krónunnar, án þess að við förum út í það nákvæmlega hér. Það skiptir ekki máli í sjálfu sér en það er ástæða fyrir því og ber að fagna því að hlutfallið skuli haldast, hverjar svo sem hinar innri ástæður eru.

Ég tek heils hugar undir með hæstv. ráðherra um hinar pólitísku og siðferðislegu skyldur okkar á sviði þróunarsamvinnu. Þrátt fyrir mjög erfitt efnahagsástand hér á landi er Ísland enn í hópi ríkustu þjóða heims og við berum skyldur í alþjóðlegu samhengi á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum.

Ég geri þá ráð fyrir að áætlunin verði lögð fram lögum samkvæmt eigi síðar en í haust, á haustþingi eða vetrarþingi, og þá fer hún í meðferð á hinu háa Alþingi. Það sem ég vildi inna hæstv. ráðherra frekar eftir varðar stefnuna í fjárframlögum til þróunarmála, því að höfum skuldbundið okkur til þess að auka framlögin. Það væri forvitnilegt að heyra hvaða hugmyndir ráðherrann hefur um þróunina á næstu fjórum árum og hvort áætlunin muni þá fela í sér áætlun um aukin framlög til þróunarsamvinnu. Allra síðast vildi ég gjarnan heyra nánar um skoðanir hæstv. ráðherra á þeirri löggjöf sem nú er í gildi og hvort hann hefur í hyggju að leggja fram breytingar á henni á næstunni. Það er auðvitað rétt og í undirbúningi þeirrar löggjafar sem við vinnum eftir núna hefur það m.a. verið orðað að það ætti að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og setja hana inn í ráðuneytið. (Forseti hringir.) Mig fýsir að vita hvort hæstv. utanríkisráðherra hefur myndað sér sérstaka skoðun á því.