138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[11:32]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður mundi lesa vel í gegnum þessa áætlun kæmi fram hvernig við ætlum að ná þessu markmiði. Hér er t.d. að mínu mati tímamótaframsetning á hugmynd að strandsiglingum í stað mikilla vöruflutninga, þær eru umhverfisvænni.

Á vegum Siglingastofnunar er mjög mikil vinna lögð í að vinna repjuolíu, lífolíu. Talað er um umhverfisvæna bíla og ef þeim fjölgar, hvort sem það eru rafmagnsbílar, metanólbílar eða tvinnbílar, þeir hafa áhrif. Síðast en ekki síst, virðulegi forseti, er sett fram í áætluninni og boðað í langtímaáætlun mikið og gott átak í almenningssamgöngum. Eru þetta ekki allt saman þættir sem eru mjög umhverfisvænir og eru liðir í markmiðum stjórnvalda til að ná þessari lækkun um 30 eða 26% til ársins 2025?

Virðulegi forseti. Ég held að þessi samgönguáætlun sé með mjög mörg og góð markmið í þessa átt. Ég þakka þingmanninum fyrir að benda mér á þetta og fá tækifæri til að setja þetta fram í andsvari.