138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[12:32]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram hefur komið. Hæstv. samgönguráðherra leggur fram samgönguáætlunina núna við mjög þröngar aðstæður. Ég ætla í sjálfu sér ekki að gagnrýna það að hann þarf að taka tillit til þeirra aðstæðna að öðru leyti en því að ég tel að það hafi verið mjög mikil mistök við myndun þessarar ríkisstjórnar að taka um það ákvörðun að heimila ekki að flytja óhafnar framkvæmdir eða framkvæmdafé á milli ára. Það er ljóst mál að í árslok 2008 lágu inni verulegir fjármunir sem ekki var hægt að nýta til vegaframkvæmda og það að taka ákvörðun um að heimila ekki að nýta það á árinu 2009 og 2010 var rothögg. Það var mjög slæmt og hafði alvarlegar afleiðingar, m.a. þær að ekki tókst að hefja nein ný útboð á árinu 2009.

Í annan stað vil ég leggja á það mikla áherslu að í þessari samgönguáætlun munum við eftir tengivegunum. Þeir hafa verið að fá aukið vægi vegna búháttabreytinga, vegna búsetubreytinga, vegna þess að fólk sækir sér vinnu um lengri veg. Þess vegna er mjög mikilvægt að við höldum áfram þeirri stefnu sem mörkuð var að auka fremur fjármuni til tengiveganna.

Að lokum vil ég taka sérstaklega undir það sem sagt hefur verið um Dýrafjarðargöngin. Þau eru mjög mikilvæg. Á sínum tíma tókst okkur að flýta upphaflegum áætlunum um að hefja þessar framkvæmdir frá árinu 2010 til 2009. Við höfum, Vestfirðingar, skilning á því að ekki tókst að standa við þau áform en við gerum hins vegar kröfu til þess að menn hverfi ekki frá þessu, þessi framkvæmd verði áfram inni á vegáætlun, ekki bara sem orð á blaði heldur með þeim tölum sem duga til að hægt sé að hefja framkvæmdir. Þetta er, eins og hér hefur verið sagt, gríðarlega mikilvæg framkvæmd og er ástæða til að undirstrika það. Aðeins út af því að félagi nr. 1 í hollvinasamtökum Árneshrepps minnti á Veiðileysuhálsinn vill félagi nr. 2 í sömu samtökum taka undir þau sjónarmið — það er örugglega alger einhugur í hollvinasamtökunum um afstöðuna til þessarar uppbyggingar.

Að öðru leyti ætla ég að ræða um brýnasta verkefnið í vegagerð á Íslandi í dag, sem er uppbygging Vestfjarðavegar. Það hefur verið hrein hörmungarsaga. Eins og staðan er í dag mundu ekki allir heimsins peningar duga til að koma þeim framkvæmdum af stað. Við erum einfaldlega pikkföst. Það er búið að rekja þessa hörmungarsögu. Við höfum hvað eftir annað verið búin að leggja peninga til að fara í þessar framkvæmdir. Á vegáætlunartímabilinu 2007–2010 voru lagðar fram fjárveitingar sem námu 3,5 milljörðum kr. til vegagerðar frá Svínadal að Flókalundi. Ef ekki hefðu komið til þessar tafir, sem ég ætla aðeins að fara yfir á eftir, værum við væntanlega að sjá núna lok vegaframkvæmda frá Þorskafirði fyrir Gufufjörð og Djúpafjörð að Melanesi við Skálanes í Gufufirði. Það er auðvitað hörmulegt að svona skyldi takast til og við erum í algerlega ómögulegri stöðu. Ég hef verið að bíða átekta eftir því að stjórnsýslan ynni verk sín sem hún hefur verið að vinna vel að mínu mati af hálfu Vegagerðar og samgönguráðuneytis — að átta sig á þeirri stöðu sem komin er upp í kjölfar hins dapurlega hæstaréttardóms varðandi vegstæðið úr Þorskafirði í Melanes.

Nú liggja þær upplýsingar fyrir. Nú eru að skýrast óðum hvaða kostir eru í stöðinni og það blasir við að þetta eru mjög slæmir kostir. Nú er sagt sem svo: Annaðhvort getið þið beðið í óvissu í kannski fimm ár með það hvort hægt sé að fara þá leið, láglendisleiðina út Þorskafjörðinn og með þverun fjarðanna, eða við getum farið strax upp á hálsana. Sú leið að fara með vegina um Ódrjúgsháls og Hjallaháls er alveg afleit. Hún mun ekki leysa þann vanda sem við ætlum að leysa varðandi samgöngumál fyrir Vestur-Barðastrandarsýslu. Við getum einfaldlega ekki látið bjóða okkur þetta. Þetta er eins og við eigum að taka afstöðu til þessa mikilvæga máls, til tveggja vondra kosta, með gikkinn á gagnauganu. Alþingi getur hins vegar ráðið þessu máli. Alþingi fer með löggjafarvaldið. Alþingi getur að sjálfsögðu samþykkt lög sem fela það í sér að heimila þessa vegagerð. Það er rétt. Þetta mundi útrýma óvissunni vegna þess að þetta væru sérlög sem tækju þá almennum lögum fram. Ég tel að við eigum í framhaldi af þessu að íhuga þann kost mjög alvarlega. Ég er a.m.k. reiðubúinn til þess og ég er sannfærður um að það er mikill vilji til þess.

Með þessu er ég ekki að mæla því bót að við eigum að fara eitthvað óvarlega gagnvart umhverfinu og sú leið, B-leið, sem þáverandi hæstv. umhverfisráðherra úrskurðaði um á sínum tíma, var að mínu mati leið sem virti mjög vel umhverfissjónarmið en tryggði líka viðunandi lausn í þessum málum.

Í þessari þingsályktunartillögu er farið fögrum orðum um markmið um öryggi í samgöngumálum. Hæstaréttardómurinn sem féll í þessu máli byggði á þeim grundvelli að umhverfismatið mætti ekki taka til umferðaröryggismála. Mér finnst í ljósi þessa að þessi orð sem hér standa svo fögur, á bls. 2 í þessari þingsályktunartillögu, séu hálfgert ómark, a.m.k. þegar kemur að þessu. Þetta er annað málið.

Hitt málið er síðan vestan við. Núna liggur fyrir að við þurfum að fara í vegaframkvæmdir frá Eiði í Vattarfirði að Þverá í Kjálkafirði. Þau mál eru í sama uppnáminu. Það tók hæstv. umhverfisráðherra sjö mánuði að úrskurða um og taka afstöðu til þeirrar niðurstöðu Skipulagsstofnunar að sá kafli þyrfti að fara í umhverfismat. Sjö langir dýrmætir mánuðir liðu án þess að menn gætu aðhafst nokkurn skapaðan hlut. Auðvitað var niðurstaðan fyrirsjáanleg. Auðvitað samþykkti hæstv. umhverfisráðherra álit Skipulagsstofnunar. Málið er með öðrum orðum allt í sama uppnáminu og áður.

Ég lagði til fyrir tæpu ári að við reyndum að ná samkomulagi í þá veru að heimilað yrði að leggja vegi án umhverfismats, í samstarfi við Skipulagsstofnun, á þeim hluta þessa vegar þar sem verið væri að tala um að vegurinn mundi liggja sem næst núverandi vegstæði. Það finnst mér sanngjörn ósk af okkar hálfu. Undir það hafa til að mynda heimamenn í Vestur-Barðastrandarsýslu tekið. Ég skora á hæstv. ráðherra að fylgja þessari hugmynd eftir því að þetta er eina leiðin til að koma okkur að sinni út úr þeim vanda sem við erum í með vegaframkvæmdir á þessum slóðum. Það getur ekki verið annað en þá meinbægni ef einhver í kerfinu fer að leggjast gegn þeirri sanngjörnu ósk okkar að fá að leggja vegi þar sem vegir eru fyrir. Það geta varla talist nokkur umhverfisspjöll í því. Vel má vera að einhverjum reglum þurfi að breyta og þá breytum við þeim reglum. Hugsanlega þarf að breyta lögum og þá breytum við þeim lögum. En við hljótum sem sanngjarnt fólk úr öllum stjórnmálaflokkum að sjá þessa himinhrópandi þörf og þess vegna blasir það við hjá okkur núna að reyna að einhenda okkur sameiginlega í það til að byrja með að leggja veginn á þessum slóðum.

Ég hef skoðað þetta mál með sérfræðingum frá Vegagerðinni. Þeir eru þeirrar skoðunar að þessi kafli sem ég er að tala um gæti kannski verið um 10–12 km á lengd. Það mundi muna um það í þeim vegleysum sem við ökum nú um á þessum slóðum. Ég vil þess vegna ítreka það og skora á hæstv. ráðherra að standa með okkur í þessum efnum. Það er einfaldlega þannig að þessar vegleysur, eins og þær eru í dag, standa byggðinni mjög fyrir þrifum. Ekki bara það. Íbúarnir á þessum svæðum hafa verið að fylgjast með þeim framförum sem orðið hafa í vegamálum víða um land. Þeir spyrja auðvitað þessarar spurningar: Hvers eigum við eiginlega að gjalda? Þeim er það ljóst að Alþingi hefur ákveðið að setja verulegt fjármagn í vegaframkvæmdir á þessum slóðum. Þeim er það líka ljóst að ekkert er að gerast eða nánast ekkert er að gerast. Það er að vísu verið að leggja veg núna að Þverá í Kjálkafirði vestan megin frá, frá Vatnsfirði, og það er vissulega vel. Sú framkvæmd dróst líka. Áætlunin um útboðið þar dróst því miður. Við skulum hins vegar ekki vera að velta okkur upp úr þeirri fortíð. Aðalatriðið er núna að við reynum að einhenda okkur í a.m.k. praktíska úrlausn þar sem hún blasir við og þetta sem ég hef verið að segja skiptir miklu máli í því sambandi. Á þeim tíma getum við síðan unnið úr því hvernig við leysum þessi mál með vegagerðina úr Þorskafirði, með þverun Þorskafjarðar, út Þorskafjörð að Hallsteinsnesi yfir í Melanes í Gufufirði.

Þetta eru þær framkvæmdir sem blasa við. Þær eru dýrar, sannarlega er það rétt. En þetta svæði hefur ekki verið mjög þungt á ríkissjóði þegar kemur að vegaframkvæmdum. Það er beðið eftir þessu og ég trúi ekki öðru, í ljósi þeirra yfirlýsinga sem hafa fallið hjá þingmönnum í þessari umræðu í dag og oft í umræðum sem hafa farið fram um vegamál á þessu svæði, en við getum einhent okkur í þetta sameiginlega. Fyrsta verkefnið er þá að leysa málin frá Eiðinu í Vattarfirði áleiðis að Þverá með þeim hætti sem ég nefndi og síðan jafnframt að vinna að vegaframkvæmdunum þannig að við getum komist fram hjá þessum vegleysum um Ódrjúgsháls og Hjallaháls því að vegurinn getur ekki legið þar yfir.