138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[16:01]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér gagnmerka þingsályktunartillögu sem er samgönguáætlun fyrir árin 2009–2012. 2009 er liðið og helmingurinn af 2010 þannig að þetta nær yfir tvö og hálft ár en hvað um það.

Ég er þeirrar skoðunar að gríðarlega mikil mistök hafi verið gerð í fyrra við fjárlagagerð fyrir þetta ár þegar framkvæmdir til vegamála voru skornar niður. Að skera niður framkvæmdir til vegamála bætir ekki stöðu ríkissjóðs nema bara á þeim punkti. Nauðsynlegar framkvæmdir ýtast fram í tímann þannig að þær er ekki hægt að spara aftur. Það hefði frekar átt að fara í rekstrargjöldin sem koma ár eftir ár og þá hefðum við kannski náð að byrja fyrr á þeim nauðsynlegu vegaframkvæmdum og samgöngubótum sem þarf að fara í hér á Íslandi.

Verkefnum í samgönguáætlun er raðað upp eftir kjördæmum. Sumir kunna að gagnrýna það á þann veg að það kalli á kjördæmapot og annað en ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég tel að þingmenn hvers kjördæmis eigi að halda utan um þær framkvæmdir sem þarf að ráðast í og berjast fyrir þeim vegna þess að peningarnir eru af skornum skammti og það er augljóst að ef ekki verður raðað eftir kjördæmum fara allir peningarnir þangað sem atkvæðin eru flest, þ.e. hingað á suðvesturhornið.

Ég er þingmaður Norðausturkjördæmis. Það er kjördæmið sem er hvað hálendast getum við sagt hér á Íslandi. Þar er mikið af fjallvegum og fjöllum sem þarf að fara yfir. Þar hefur verið gert þó nokkurt átak í jarðgangagerð með Héðinsfjarðargöngum, göngum á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar o.s.frv. En betur má ef duga skal. Knýjandi er að fá tvenn jarðgöng í þessu kjördæmi. Þá á ég við Norðfjarðargöng og ég fagna því að skuli gert vera ráð fyrir að farið verði í þau göng með fjárframlagi á næsta ári upp á 220 milljónir og 1.174 milljónir árið 2012. Ég hefði viljað sjá meiri hraða á þessu. Hin göngin eru Vaðlaheiðargöng sem hefur verið talað um að fari í einkaframkvæmd vegna þess að þar er mun meiri umferð en á milli Norðfjarðar og Eskifjarðar. Má áætla að um Vaðlaheiðargöng muni fara um 1.400 bílar á dag þegar þau verða komin og er brýnt að hið opinbera beiti sér fyrir því að ráðist verði í þau göng.

Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið þó nokkur mistök að sameina hefðbundnar samgönguframkvæmdir og jarðgöng undir einn hatt vegna þess að göng eru gríðarlega dýrar framkvæmdir sem taka allt frá öðrum framkvæmdum í kjördæminu meðan þær eru í gangi. Þannig leiða Norðfjarðargöng til þess að mun minna er lagt í aðrar framkvæmdir á því árabili sem göngin verða gerð. Þetta tel ég vera mistök. Ég tel að jarðagangaáætlun eigi að vera sérstakt átak sem sé óháð kjördæmum og öðru slíku. Þetta leiðir til þess að mjög nauðsynlegar framkvæmdir í Norðausturkjördæmi tefjast og komast ekki einu sinni inn á samgönguáætlun. Þar er kannski fyrst að nefna neðri hluta Dettifossvegar sem er mjög brýn framkvæmd til þess að klára það sem hefur verið framkvæmt þar, efri hlutinn verður búinn innan skamms.

Síðan er ein framkvæmd sem er lítið talað um og það er að endurnýja brúna yfir Jökulsá. Ljóst er að við búum í landi þar sem mikil hætta er á eldgosum og öðru eins og við höfum séð undanfarnar vikur. Ef það mundi verða stórt eldgos t.d. í Heklu — ég ætla að standast þá freistingu að segja að það sé að koma Heklugos eins og okkar ástkæri forseti spáði á dögunum í erlendum sjónvarpsstöðvum — en það má segja að við eigum von á Kötlugosi þá er ljóst að við það mun hringvegurinn sópast í burtu. Þá er eina leiðin að fara norður fyrir og yfir brúna á Jökulsá sem ekki ber nema visst mikla þungaflutninga. Í nútímasamgöngum er ómögulegt að farið sé yfir á vaði auk þess sem gæti verið vöxtur í jökulám og annað slíkt þannig að það væri einfaldlega ekki hægt að fara yfir á vaði. Brú yfir Jökulsá er því öryggisatriði fyrir stóran hluta landsmanna, ekki eingöngu þá sem búa næst við eða t.d. á Austurlandi heldur líka þá sem búa á Suðurlandi og því ætti það að vera baráttumál fyrir Sunnlendinga að berjast fyrir brú yfir Jökulsá.

Þetta plagg er til fyrirmyndar að því leytinu til að þarna sjáum við nokkuð skýrt hvað verður farið út í á næstu árum. Ég hefði viljað láta framkvæma meira. Það er ekki mikill sparnaður fyrir okkur Íslendinga þrátt fyrir að erfitt sé í ríkisfjármálunum að skera niður í samgönguframkvæmdum. Út af hverju segi ég það? Jú, það er vegna þess að með því að leggja af framkvæmdir eða vera í sáralitlum framkvæmdum er ljóst að verktakar úti um allt land munu hafa lítið sem ekkert að gera og reksturinn hjá þeim verður erfiður og þeir fara á hausinn þannig að þá liðast í sundur sú þekking sem er í gerð samgöngumannvirkja úti um allt land. Verktakar missa vinnuna og lánardrottnar tapa peningum sem þeir hafa lánað verktökunum. Það eru því ein rök fyrir því að ekki sé skorið niður í samgönguframkvæmdum eins gróft og nú er gert og ég er alveg handviss um að hæstv. samgönguráðherra er mér sammála um það.

Það mætti tæpa á fleiri hlutum í sambandi við þessa samgönguáætlun en að lokum vil ég minnast á eitt atriði: Samgöngur eru gríðarlega mikilvægur þáttur í að halda uppi góðri, mikilli framleiðni í landinu eða framleiðniaukningu og leiðir til aukins hagvaxtar. Kostnaður við flutninga minnkar með batnandi samgöngum þannig að ódýrara verður að starfrækja fyrirtæki úti á landsbyggðinni, framleiðslufyrirtæki til að mynda, og framleiðni vex almennt. Ég vil halda því fram að vitlaust sé forgangsraðað núna þegar við erum að ná tökum á ríkisfjármálunum. Ég hefði sagt úr frá þeim rökum sem ég hef hér fært fram og margvíslegum öðrum að það sé skammgóður vermir að fresta og hefta fjárfestingar í samgöngumannvirkjum.