138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

veiðieftirlitsgjald.

371. mál
[18:21]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Áður en ég hef mál mitt vil ég gjarnan vita hvort hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi brugðið sér í heimsókn hér í húsið. Ef svo er býð ég hann velkominn. Það hefði verið æskilegt að hann sýndi umræðunni sem fram fór hér áðan um strandveiðarnar þá virðingu að vera viðstaddur umræðuna. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Hann kom til 2. umr. þess máls þegar eftir því var kallað af hv. þingmönnum. Hann hafði greinilega ekki hugsað sér að vera viðstaddur umræðuna, en nú kallar hann fram í og segist vera að undirbúa reglugerð vegna strandveiðifrumvarpsins — sem ekki er búið að samþykkja. Hingað til hefur upplýsingum um hvernig þessari reglugerð yrði háttað verið haldið frá þinginu. Nú segir hæstv. ráðherra að málið sé klárt. Ég vænti þess að í fyrramálið, þegar málið verður afgreitt úr þinginu, muni hann kveðja sér hljóðs og greina frá efni reglugerðarinnar. Ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra, sem hefur oft haldið langar ræður á þingferli sínum um mikilvægi þess að þingið sé vel upplýst um hlutina, fari á bak við tjöldin í reykfyllt bakherbergi sitt að undirbúa reglugerð án þess að láta þinginu í té þær upplýsingar sem þar eru. Ég vænti þess og mun ella ganga eftir því í fyrramálið að hæstv. ráðherra, í ljósi frammíkalls hans, greini þinginu frá efni reglugerðarinnar. Ég gekk mjög hart eftir því í nefndinni að það væri gert. Svörin voru á svipaða lund og hæstv. ráðherra gaf eftir að hann skrapp hér í 2. umr. á sínum tíma. Það er ekki hægt að búa við það að mál sem afgreidd eru með svo opnum hætti séu síðan lögð í hendur ráðherra og hann sé að bauka og pukra við það að búa til reglugerð á sama tíma og við ræðum málið og greini okkur ekki frá efni hennar. Þetta er auðvitað miklu alvarlegra mál en ég hugði og mun kalla eftir viðbrögðum ef ekki verður gerð grein fyrir þessu.

Þegar frumvarpið sem við ræðum hérna, frumvarp um veiðieftilitsgjald, var upphaflega lagt fram í byrjun febrúarmánaðar lét það ekki mjög mikið yfir sér. Ég hygg að flestir hafi ímyndað sér að hér væri um að ræða sakleysislega sendingu úr ráðuneytinu. Þetta er einhvers konar pólitískt viðhengi við strandveiðifrumvarpið og andlag skattlagningarinnar sem þarna er verið að boða strandveiðiflotanum.

Það var hins vegar athyglisvert að ekki var hægt að sjá, hvorki af frumvarpinu sjálfu, athugasemdum né ráða af ræðu hæstv. ráðherra, sem nú stendur á hljóðskrafi í hliðarsölum, hvort um væri að ræða skattlagningu eða þjónustugjald. Í umræðunni kallaði ég hins vegar eftir því hvort um væri að ræða skattlagningu eða þjónustugjald, því þetta skipti mjög miklu máli. Í ljós kom í máli hæstv. ráðherra í andsvari við mig að hér væri um að ræða nýjan skatt og á þessu er gríðarlegur munur. Við vitum að stjórnarskráin hefur mjög strangar takmarkanir um skattlagningar. Alþingi getur ekki framselt skattlagningarvald sitt en þjónustugjaldið hefur allt aðra merkingu. Þjónustugjaldi er ætlað að standa undir skilgreindri afmarkaðri þjónustu þar sem reynt er að leggja mat á kostnaðinn við tiltekna hluti. Þjónustugjaldinu er ætlað að standa undir þeirri starfsemi.

Hér er klárlega um nýja skattlagningu að ræða og ég gerði hæstv. ráðherra það til heiðurs að kalla hann hinn nýja skattmann. Hann tók því vel enda kemur hann úr þannig stjórnmálaflokki að hann telur það væntanlega mikið hól. Þessi skattur er hins vegar mjög sérstakur. Eins og við vitum er lögum þannig háttað varðandi hafnirnar í landinu að Alþingi veitir fjármagn til uppbyggingar og fjárfestinga í höfnum eftir ákveðnum lögum sem Alþingi hefur samþykkt. Um alls konar fjárfestingar í höfnum getur verið um að ræða, þó er skilgreint mjög vel í hverju þær skuli felast. Það geta verið ytri eða innri hafnarmannvirki og ýmislegt fleira. Allt fer þetta eftir ákveðnum reglum, ríkið leggur til ákveðna prósentu og sveitarfélögin ákveðna prósentu.

Hins vegar hafa sveitarfélögin heimild til að leggja á önnur gjöld, aflagjöld og slíkt, til að standa undir rekstri hafnanna og auðvitað er ákveðin samkeppni þeirra á milli. Hér er hins vegar bryddað upp á nýmæli. Sett er fram frumvarp um sérstaka skattheimtu á tiltekinn hluta flotans, 50 þús. kr. á hvern bát sem fer til strandveiða. Þetta er með öðrum orðum strandveiðiskatturinn, mikilvægt að menn muni hið nýja heiti.

Förum aðeins yfir málið. Í fyrra, á síðasta fiskveiðiári, voru um 600 bátar sem stunduðu svokallaðar strandveiðar, alla vega fengu tæplega 600 bátar leyfi. Þeir voru eitthvað færri sem lönduðu. Það má teljast nokkuð öruggt að þeir verða ekki færri núna, sennilega fleiri. Eins og við vitum hefur gengið mjög mikið á þorskkvótann og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur brugðist við kröfum manna um auknar aflaheimildir að hann hefur vísað á strandveiðarnar. Í blaðaviðtali við Skessuhorn sagði hann: Þetta er svarið, svarið er komið. Hér eru 5.000 tonn, veskú, af þorski og þeir sem vilja nýta sér þetta fara bara í strandveiðarnar.

Ég á ekki von á öðru en að margir útgerðarmenn bregðist mjög jákvætt við þessar herhvöt hæstv. ráðherra. Mér finnst fremur ósennilegt annað en að það verði a.m.k. 600 bátar, kanski gott betur, sem muni stunda þessar veiðar þannig að með þessum sérstaka hætti verður til tekjustofn upp á 30–40 millj. kr. á yfirstandandi ári. Hugmyndin er síðan sú að það verði Fiskistofa sem annist innheimtu á þessum gjöldum, það fer ekki í gegnum innheimtukerfi ríkissjóðs að öðru leyti, það er Fiskistofa sem á að innheimta þetta og síðan verður því dreift út í hlutfalli við landaðan afla af strandveiðibátum í viðkomandi byggðarlögum. Eftir því sem menn landa meiru af strandveiðiafla þeim mun hærri verða tekjur hafnanna og það er út af fyrir sig sjónarmið sem má alveg hugsa.

Í ljósi þess að þetta er skattur, ekki þjónustugjald, töldum við í minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar nauðsynlegt að þessu máli yrði vísað til efnahags- og skattanefndar Alþingis vegna eðlis málsins. Það er sú nefnd sem fer með skattamálin sem lögð eru fyrir Alþingi og þess vegna er rökrétt að kalla eftir áliti hennar á þessu skattafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Álit efnahags- og skattanefndar fylgir með sem fylgiskjal sem er mjög fróðlegt að lesa og glöggva sig á málum.

Efnahags- og skattanefnd kallaði til ráðslags við sig fulltrúa fjármálaráðuneytisins og í áliti nefndarinnar segir um ábendingar ráðuneytisins:

„Athygli var vakin á því af hálfu fjármálaráðuneytis að ráðstöfun skattsins gæti raskað samkeppnisgrundvelli hafna auk þess að samræmast illa stefnu um að draga úr vægi markaðra tekjustofna. Einnig kom fram að gjaldskrárákvarðanir hafna tækju almennt mið af kostnaði við að veita viðkomandi þjónustu.“

Virðulegi forseti. Það fer ekkert á milli mála að fjármálaráðuneytið er ekki mjög hrifið af þessari aðferð við skattlagningu. Það kemur dálítið á óvart að einn ráðherra í ríkisstjórnar leggur fram skattafrumvarp sem greinilega er ekki að skapi þess ráðuneytis sem fer með þennan málaflokk innan stjórnsýslunnar. Í ljósi þessa kom það auðvitað ekkert á óvart að efnahags- og skattanefnd teldi sérstakt tilefni til þess að finna ráðstöfun skattsins annan farveg en gert var. Nefndin velti upp tveimur möguleikum. Í fyrsta lagi að hækka framlög til Hafnabótasjóðs, og í annan stað að eftirláta Fiskistofu að gera þjónustusamninga við hafnir undir tilgreindum viðmiðunarmörkum, en Fiskistofa lagðist gegn því.

Niðurstaða efnahags- og skattanefndar Alþingis, sem að stóðu fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa í nefndinni, var mjög skýr.

Niðurstöðuna má finna í lok álitsins og þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Nefndin telur að það samræmist fjárveitingavaldi Alþingis betur að framlög til málaflokka séu ákveðin í fjárlögum fremur en í almennum lögum en hún skilur markmið frumvarpsins.“

Gott og vel, menn skilja markmið frumvarpsins, það er út af fyrir sig ekki óskiljanleg hugsun. Hins vegar fer ekkert á milli mála að nefndinni, þessari nefnd sem fer með skattamálin hér á Alþingi, finnst þetta ekki gott ráðslag. Það má ætla að hennar áliti sé að nefndin hefði talið skynsamlegra að hækka fjárveitingar til hafnanna, væntanlega í samræmi við það sem næmi tekjum einstakra hafna af þessum nýja tekjustofni. Þrátt fyrir það leggur meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar ekki til að gerðar verði nokkrar breytingar á frumvarpinu sjálfu og ekki tekið tillit til álits þeirrar þingnefndar sem fer með skattaleg málefni á Alþingi.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er sama marki brennt og mörg önnur sem ríkisstjórnin hefur lag fram á sviði sjávarútvegsins. Málið er ekki vel undirbúið. Það sem kemur sérstaklega á óvart og kemur fram í yfirferð efnahags- og skattanefndar, er að það virðist ekki hafa verið unnið í neinu samráði innan stjórnsýslunnar. Hin neikvæðu viðbrögð fjármálaráðuneytisins segja okkur að það hefur ekki verið unnið í eðlilegu samráði innan stjórnsýslunnar. Sannarlega hefur hæstv. ráðherra fullan rétt til þess að leggja fram slík frumvörp en það hefði ekki komið á óvart að ráðherrann hefði a.m.k. leitað eftir samráði hjá sínum góða flokksformanni um þessi mál. Í álitinu segir líka, sem ég gerði hér að umtalsefni, að sú aðferðafræði sem kynnt er í frumvarpinu er bersýnilega í blóra við stefnu ríkisvaldsins um að draga úr vægi markaðra tekjustofna.

Virðulegi forseti. Ég efast ekki um að 30–40 millj. kr. tekjur muni koma sér vel fyrir hafnir landsins sem þeirra munu njóta, það er enginn vafi á því. Ýmsir munu örugglega fagna því að fá meiri tekjur. Ég hygg hins vegar að þeir hinir sömu séu út af fyrir sig ekkert ánægðir með að unnið sé að þessum málum í þágu hafnanna með þessum handarbakavinnubrögðum. Ég er viss um að sveitarstjórnarmenn hefðu frekar kosið að tekjuaukinn upp á 30–40 millj. kr. hefði verið gerður á grundvelli laga sem væri bærileg sátt um. Það er dálítið sérkennilegt í þessum litlu frumvarpi sem er ætlað að búa til 30–40 millj. kr. tekjur fyrir sveitarfélögin, fyrir hafnirnar, að alvarlegar athugasemdir skuli ekki vera skoðaðar sem hafa komið fram, bæði frá efnahags- og skattanefnd Alþingis og eins frá fjármálaráðuneytinu sjálfu.

Virðulegi forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Það hefur fengið sína meðhöndlun, að mínu mat hefur það fengið eðlilega og efnislega meðferð í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Það styrkti umræðuna að kalla eftir áliti efnahags- og skattanefndar. Hins vegar ber að harma það að meiri hlutinn skuli hvorki hafa brugðist við efnislegum athugasemdum né að ráðherrann hafi haft einhvern atbeina að því að kalla frumvarpið aftur í ljósi þeirra athugasemda sem komu fram. Auðvitað verður hver að kjósa sína aðferð og við í minni hlutanum fáum væntanlega ekki neinu breytt. Við teljum hins vegar nauðsynlegt að draga fram þessa miklu annmarka sem sannarlega eru á löggjöfinni og vekja athygli á þeim ef það yrði til þess að menn mundu þá síðar á þessu ári, t.d. á haustþingi, endurskoða þetta fyrirkomulag.