138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

bifreiðalán í erlendri mynt.

[12:32]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mér mikil ánægja að geta upplýst hv. þingmann og þingheim allan um að ég lagði fram frumvarp í ríkisstjórn í morgun um þetta mál og fékk það samþykkt þar til framlagningar í þingflokkunum. Við höfum, eins og hv. þingmaður rakti ágætlega, verið í samtölum við eignarleigufyrirtæki um eðlilega umbreytingu þessara lána og verið að reyna að höfða til fyrirtækjanna, að það sé þeirra hagur að reyna að koma þessum lánum í það horf að samhengi verði á milli skuldsetningarinnar sem fólk glímir við og þeirra eigna sem að baki liggja. Þar með yrði tjóninu af umbreytingu lánanna sem orðið hefur vegna gengisfallsins skipt milli fyrirtækjanna og skuldara með réttlátum hætti.

Það hefur verið nokkuð misjafn gangur á því hvernig viðtökur hafa verið hjá eignarleigufyrirtækjunum. Ég tek eftir því að í þessari viku hefur komið fram yfirlýsing frá stjórn Íslandsbanka þar sem hún lýsti sig reiðubúna til samninga við félagsmálaráðuneytið um útfærslur í þessu efni. Ég tek líka eftir því að Lýsing hefur verið að grennslast fyrir um svigrúm fyrirtækisins bæði hjá Fjármálaeftirliti og Seðlabanka til þess að taka þátt í aðgerðum af þessum toga. Það er auðvitað ekki einfalt að leysa þetta mál, eins og hv. þingmaður gerði ágæta grein fyrir og réttilega, vegna þess að við erum líka að takast á við þann vanda að fyrirtækin sem enn eru starfandi eru sum hver mjög veikburða. Þetta mál verður þess vegna ekki leyst nema með því að kröfuhafar í fyrirtækin geri eðlilegar væntingar um endurheimtur krafnanna því að við getum ekki endurreist efnahagslífið á þeim forsendum að við höldum starfsemi í fyrirtækjum sem ekki hafa burði til þess að mæta eðlilegum kröfum viðskiptavina sinna (Forseti hringir.) með tilliti til aðstæðna.