138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

mat á umhverfisáhrifum.

514. mál
[16:29]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum.

Í frumvarpinu er lögð til breyting á 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum hvað varðar frest umhverfisráðherra til að úrskurða í kærumálum vegna þeirra ákvarðana sem tilgreindar eru í 14. gr. laganna. Þar er m.a. um að ræða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun tekur samkvæmt 6. gr. laganna um hvort framkvæmdir sem tilgreindar er í 2. viðauka laganna séu matsskyldar og ákvarðanir stofnunarinnar um hvort meta skuli matsskyldar framkvæmdir sameiginlega.

Í frumvarpinu er lagt til að frestur ráðherra til að úrskurða vegna slíkra kærumála verði lengdur úr tveimur mánuðum í þrjá, þ.e. um einn mánuð frá því sem nú gildir. Þó er lagt til að heimilt sé að framlengja úrskurðarfrest ráðherra um allt að þrjá mánuði til viðbótar ef um er að ræða umfangsmikil mál. Þannig er lagt til að hámarksfrestur ráðherra til að kveða upp úrskurði á grundvelli 14. gr. laganna verði þrír til sex mánuðir frá því að kærufrestur rennur út eftir umfangi mála hverju sinni. Þessi breyting er að hluta til í samræmi við tillögur sem fram koma í frumvarpi til skipulagslaga sem lagt hefur verið fram hér á Alþingi, en í 52. gr. þess frumvarps er lagt til að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála skuli kveða upp úrskurði í málum svo fljótt sem verða má og í síðasta lagi innan sex mánaða frá því að málsgögn berast frá stjórnvaldi. Er þannig lagt til að frestur úrskurðarnefndar sé lengdur um allt að þrjá mánuði.

Ástæður þeirra breytinga sem hér eru lagðar til eru þær að reynslan hefur sýnt að miðað við umfang og eðli þeirra mála sem hér um ræðir eru gildandi úrskurðarfrestir ekki raunhæfir. Ákvarðanir um áhrif framkvæmda á umhverfið eru í eðli sínu matskenndar og við það mat þarf m.a. að leita umsagna hjá sérfræðistofnunum á viðkomandi fagsviði eða annarra sérfræðiálita. Jafnframt þarf í slíkum kærumálum oft að leita eftir umsögnum viðkomandi sveitarfélaga en þau taka ákvarðanir um hvort veita eigi leyfi fyrir matsskyldum framkvæmdum. Í úrskurðum vegna þessara kærumála er þannig lagt mat á áhrif framkvæmda á umhverfið á grundvelli slíkrar gagnaöflunar og er hún forsenda þess að hægt sé að kveða upp úrskurði. Eðli þessara mála er því þannig að ríkar kröfur eru gerðar til rannsóknar mála, samanber rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Með hliðsjón af framkvæmdinni getur tekið nokkurn tíma að fá fullnægjandi upplýsingar um mál auk þess sem kærendum eru sendar viðkomandi umsagnir og þeim gefið tækifæri á að gera athugasemdir við þær í samræmi við andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður Alþingis hefur bent ráðuneytinu á að úrskurðartími ráðuneytisins vegna ákvarðana sem hér um ræðir hafi ekki verið í samræmi við 4. mgr. 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum sem er, eins og áður segir, tveir mánuðir frá því að kærufrestur rennur út. Ráðuneytið hefur í svörum sínum til umboðsmanns Alþingis bent á að framangreindir frestir séu ekki raunhæfir, samanber það sem áður greinir. Mér sem ráðherra ber skylda til að bregðast við og tryggja að ekki sé farið gegn skilyrðum laga um úrskurðartíma og er frumvarp þetta lagt fram af þeim sökum. Í bréfi ráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis nú í apríl gerði ég honum grein fyrir að ég hygðist leggja fram frumvarp hér á Alþingi þess efnis að lengja úrskurðarfresti vegna þeirra kærumála sem hér um ræðir.

Með hliðsjón af framangreindu og þeirri reynslu sem fengist hefur af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum hvað varðar úrskurðartíma er lögð til sú breyting sem frumvarp þetta kveður á um.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. umhverfisnefndar að lokinni 1. umr.