138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, stjórnsýslan er smá en geysilega hnitmiðuð og mjög skilvirk. Við lögðum fram ákveðið plan um það hvernig ætti að vinna af hálfu stjórnsýslunnar við að undirbúa aðildarsamninginn. Í mínu ráðuneyti fólst það t.d. í því að menn voru teknir tímabundið úr öðrum verkefnum. Vissulega kemur mikill kúfur og við vorum ekki viss um hvort hægt væri að byggja starfið á því en eins og hefur komið fram í skýringum mínum, sem birtast í svörum til einstakra þingmanna, þá gekk það mjög vel. Spurningin er: Er hægt að leggja það á starfsmenn aftur og aftur? Það eru kannski tveir aðrir slíkir kúfar fram undan í rýnivinnunni og síðan í samningaviðræðunum sjálfum. Þeir telja það. Þeir hafa mikið yndi af þessu starfi og telja það gefa sér mjög mikið, þeir ná miklum alþjóðlegum tengslum út á þetta og telja sig læra mikið af þessu.

Ef menn hugsa um leiðbeiningarnar sem koma fram í rannsóknarnefndarskýrslunni varðandi utanríkismálin þá er þar í fyrsta lagi talað um að það þurfi að byggja sem víðtækust alþjóðleg pólitísk tengsl. Það er talað um að við þurfum að vera virk og aðilar að fjölþjóðlegum samvinnubandalögum án þess að Evrópusambandið sé sérstaklega nefnt. Það er líka talað um að sá galli hafi m.a. komið fram í aðdraganda hrunsins að utanríkisráðuneytið, með allt sitt mannval og sín alþjóðlegu tengsl, var ekki hluti af viðbragðsáætlunum. Ég veit það. Enginn veit það betur en ég, það var ekki hluti af þeim en það er orðið það núna.

Það skiptir held ég mjög miklu máli að menn skilji að aðild eða umsóknarferli gagnvart Evrópusambandinu miðar að því að styrkja stjórnsýsluna, styrkja hag Íslands, styrkja hag heimila og fyrirtækja. Þetta er framtíðarsýn. Menn geta haft aðra framtíðarsýn. Ég skil það alveg en mér finnst ekki að hv. þingmaður geti haft mjög sterk rök fyrir því þegar hún segir: Við skulum taka þetta út fyrir sviga og bíða með þetta, fara í þetta seinna. Ég held að tíminn sé nákvæmlega núna. Það er bjargföst skoðun mín. Ég held að þetta gæti orðið mjög farsælt fyrir Ísland.