138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:54]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spurði að því hvernig mönnum liði með það að hafa gengið á bak orða sinna gagnvart kjósendum og var þar að vísa til þeirra þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem greiddu atkvæði með umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Ég get ítrekað það sem ég hef sagt áður hér, ég hef aldrei haldið því fram neins staðar þar sem ég hef komið, hvorki í ræðu né riti, að ég mundi ekki styðja slíka tillögu. Ég hef aldrei sagt það. Ég hef hins vegar sagt að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan Evrópusambandsins en ég tel líka að þegar Alþingi hefur tekið þessa ákvörðun, að fara í þetta ferli, eigum við að ljúka því. Ég tel að það sé mikið lýðræðismál að þjóðin fái að kveða upp úr um það hvað hún vill gera í þessu. Ef menn kæmu hér t.d. með þingsályktunartillögu um að draga umsóknina til baka væri það, að mínu viti, bakslag fyrir lýðræðið í landinu. Þá væri verið að koma í veg fyrir að þjóðin fengi á upplýstum grunni að taka ákvörðun um framtíð sína, um örlög sín í þessu máli til langrar framtíðar. Ég mundi ekki styðja slíka tillögu, svo að það sé sagt hér, ég mundi ekki gera það, ég mundi ekki mæla með því að slík tillaga kæmi fram. Ég held líka að það mundi leiða til þess að menn færu að spyrja sig: Bíddu, hvað vill þetta Ísland eiginlega í utanríkis- og alþjóðamálum yfirleitt? Er ekkert mark á því takandi? Ég held því að menn verði að spyrja sig ýmissa grundvallarspurninga í þessu efni.

Af því þingmaðurinn ræddi svolítið um afstöðu síns flokks þá er það alveg ljóst að innan Sjálfstæðisflokksins, eins og í ýmsum öðrum flokkum, eru skiptar skoðanir um nálgunina í þessu máli og reyndar ekki bara um nálgunina heldur um grundvallaratriði. Hv. þingmaður veit að þannig er það líka í Sjálfstæðisflokknum og það vitum við. Við skulum því ræða þessa hluti eins og þeir eru. Það eru skiptar skoðanir í flestum stjórnmálaflokkum um þetta mál og skoðanir mega vera skiptar, hvort sem flokkar eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, það er ekkert óheilbrigt í því efni.