138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[15:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg fallist á þetta, að við höfum þjóðaratkvæðagreiðslu sem hafi áhrif, en til þess þurfum við að breyta stjórnarskránni. Við verðum að breyta stjórnarskránni fyrst vegna þess að annars verður kosið um málið hér á Alþingi þar sem menn verða að fara að sannfæringu sinni. Ég væri alveg til í að þjóðin tæki ein ákvörðun og Alþingi fjallaði ekkert meira um það. Sjálfstæðisflokkurinn lagði meira að segja til að það yrði gert þannig, það yrði kannað, þjóðin látin kjósa um hvort hún vildi yfirleitt ganga í Evrópusambandið. Síðan þegar búið væri að samþykkja það þá ætti að kjósa aftur, en það þarf þá að hafa stoð í stjórnarskránni. Það er geysimikil ákvörðun að ganga í Evrópusambandið. Það þarf fullveldisframsal o.s.frv. Það þarf að breyta stjórnarskránni. (Gripið fram í: Það verður gert.) Það verður gert eftir kosningar og í þeim kosningum verða kjörnir þingmenn sem fara að sannfæringu sinni því að stjórnarskráin verður þá enn í gildi. Ég sé enga lausn á þessu, frú forseti, nema breyta stjórnarskránni fyrst.