138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir fyrirspurnina. Hvað varðar þessa hringferð peninga erum við vissulega að reyna að koma í veg fyrir að slíkt geti endurtekið sig, en eins og ég sagði í lokaorðum mínum er þetta frumvarp bara eitt af mörgum skrefum sem þarf að taka. Við reynum að koma í veg fyrir hringferð peninga með því að herða eftirlit með virkum eignarhlut. Núna þarf sem sagt að veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar um þá sem eiga virkan eignarhlut og fá samþykki þess fyrir virkum eignarhlut.

Hvað varðar gagnkvæmu vátryggingafélögin var og er, eins og hv. þingmaður benti á, ákveðinn galli í lögunum um þau, það vantaði ákvæði um það hvernig slíta ætti slíkum félögum þegar þau skiluðu inn starfsleyfinu. Þessi ágalli varð til þess að fé margra einstaklinga var notað af örfáum einstaklingum sem höfðu aðgang að þessum félögum í áhættufjárfestingar. Margir töpuðu í raun inneign sinni í þessum gagnkvæmu vátryggingafélögum vegna þess að þar vantaði ákvæði um það hvernig slíta ætti og greiða út það sem væri inni í þeim þegar þau hættu rekstri.