138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

dómstólar.

390. mál
[23:00]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég hef ekki tjáð mig áður um það tiltekna frumvarp sem er til meðferðar, frumvarp til laga um breyting á lögum um dómstóla, en það er ágætt að fá tækifæri til þess undir lok málsmeðferðar hér á þingi. Ég hef hins vegar margoft, bæði hér á þinginu og í opinberri umræðu, rætt um það með hvaða hætti haga ætti reglum um skipan dómara og verið mjög opinn fyrir því að þeim ákvæðum laga sem um það gilda verði breytt. Það fyrirkomulag sem nú er viðhaft við skipan dómara hefur enda ekki reynst nægilega vel og of miklar deilur hafa verið um það á umliðnum árum. Forsendur fyrir þeim deilum hafa verið mismunandi og hef ég ekki tekið undir gagnrýni margra sem tekið hafa þátt í þeirri umræðu.

Það sem mér hefur eiginlega þótt verst við það hvernig þessum málum er háttað er það að dómarar við Hæstarétt hafi sjálfir eitthvað um það að segja hverjir eru skipaðir inn í réttinn. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi hefur Hæstiréttur haft umsagnarrétt gagnvart þeim umsækjendum sem sækja um starf hæstaréttardómara og mér finnst óeðlilegt að dómarar við Hæstarétt hafi umsagnarrétt eða hafi eitthvað um það að segja hverjir veljist til starfa í réttinn með þeim sem þar eru fyrir. Það er að mínu mati óheppilegt að dómarar sem sitja í Hæstarétti hafi eitthvert vald í því að velja sér vinnufélaga, svo að maður bara segi það. Rétturinn á að vera sjálfstæður, hann á að endurspegla mismunandi viðhorf en ekki einungis viðhorf þeirra sem þar sitja fyrir á fleti.

Í þessu máli er lagt til að dómsmálaráðherra skipi fimm menn í dómnefnd til þess að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti hæstaréttardómara og héraðsdómara. Það segir að tveir nefndarmanna skuli tilnefndir af Hæstarétti, þar af annar sem formaður nefndarinnar og skal a.m.k. annar þeirra ekki vera starfandi dómari. Ég fæ ekki betur séð en að í frumvarpinu sé gengið lengra í því en nú er, samkvæmt núgildandi lögum, burt séð frá mismunandi sjónarmiðum manna sem uppi hafa verið á síðustu mánuðum, missirum og árum um það hvernig núgildandi lög eigi að túlka, að fela Hæstarétti sjálfum og hæstaréttardómurum vald til þess að velja hvaða umsækjendur ráðast inn í réttinn og eru skipaðir til dómsstarfa þar. Ég verð bara að segja það að ég vil hafa á þessu annað fyrirkomulag. Ég tel óeðlilegt að dómarar við Hæstarétt eigi beina aðild að því að velja sér framtíðarsamstarfsfélaga. Það eiga aðrir að verða til þess, annaðhvort ráðherrar, sem bera þá á því pólitíska ábyrgð, eða að þingið hafi einhverja aðkomu að skipan dómara. Ég held að það fyrirkomulag sem frumvarpið kveður á um sé afleitt og ég harma að fulltrúar allra stjórnmálaflokka hér á þingi skuli ekki fyrir löngu vera búnir að setjast niður til þess að komast að einhverri sameiginlegri niðurstöðu um það með hvaða hætti fara á með þessi mál. Ég veit að um árabil hefur verið vilji til þess innan allra flokka að gera breytingar á því fyrirkomulagi sem nú er þrátt fyrir að sjónarmiðin hafi verið mismunandi eftir flokkum.

Ég vildi koma þessu sjónarmiði mínu á framfæri. Þrátt fyrir að nauðsynlegt sé að gera breytingar á lögum um skipan dómara tel ég að sú leið sem farin er í þessu frumvarpi sé alls ekki góð og í rauninni skref í ranga átt.