138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[23:28]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað varðar stjórnarskráratriðið hefur hv. formaður iðnaðarnefndar og iðnaðarnefnd beitt því fyrir sig til þess einmitt að þurfa ekki að vísa áðurnefndum Björgólfi Thor Björgólfssyni á dyr. Það hefði verið langeinfaldast ef stjórnvöld á Íslandi hefðu haft siðferðilegt þrek til þess einfaldlega að segja við Verne Holdings: Við munum ekki eiga viðskipti við þennan mann fyrr en mál hans hefur farið alla leið í gegnum uppgjörið á hruninu. Það er einfaldlega þannig að menn eiga val um það hverja þeir eiga viðskipti við. Ekki er hægt að bera fyrir sig einhverja jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar í því tilviki, það er bara útúrsnúningur. Menn ráða því hverja þeir eiga viðskipti við og íslensk stjórnvöld og íslenska ríkisstjórnin hefur kosið að eiga viðskipti við Björgólf Thor Björgólfsson þrátt fyrir feril hans hér á Íslandi og þrátt fyrir það tjón sem hann hefur valdið Íslendingum. Það er þeirra val en það hefur ekkert með stjórnarskrá Íslands að gera og við skulum ekki rugla þeim atriðum saman.