138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

happdrætti.

512. mál
[20:07]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Það vona ég að guð gefi að hv. þm. Pétur H. Blöndal skilji sjálfur hvað hann var að segja því að ekki geri ég það. Hvað í ósköpunum er það í löggjöf okkar sem stendur í vegi fyrir því að aðili sem óskar eftir því að vera sviptur sjálfræði fái þá ósk sína uppfyllta? Hvað er því til fyrirstöðu? Þarf einhverja lagasetningu til að þetta áhugamál þingmannsins geti orðið að veruleika eða er þetta veruleiki? Er þetta einhvers konar „Catch 22“ regla, að sá sem óskar þess að vera sviptur sjálfræði sé svo heilbrigður að það sé ekki ástæða til að svipta hann sjálfræði? Sé sú regla einhvers staðar í íslenskum lögum þá þekki ég hana ekki en hins vegar fagna ég því ef hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur endurskoðað afstöðu sína við ræðu mína og er ekki lengur á því að þetta sé æskilegt. Ef hann telur hins vegar að þetta sé ekki æskilegt hvers vegna vill hann þá að þetta sé gert? Hvers vegna vill hann þá að það sé rýmkað fyrir því að einhverjir hópar af fíklum sem hann hlýtur að vita um en ég veit ekki um sem óska eftir því og eiga enga ósk heitari í veröldinni en að vera sviptir sjálfræði fái það. Mér finnst það bara mannúðlegt að allir þeir sem óska þess að vera sviptir sjálfræði fái það.

Hins vegar lít ég fíkn og ráðaleysi okkar gagnvart henni það alvarlegum augum að ég nenni ekki að hafa hana að fíflskaparmálum.