138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

510. mál
[21:44]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil ekki fara að skattyrðast við hv. þingmann um þessi mál. Ég vildi einfaldlega að það væri sagt hér í umræðunni að staða fjölda heimila var orðin býsna alvarleg í aðdraganda hrunsins og lágu fyrir tölur þess efnis.

Ég vildi líka geta þess sérstaklega í þessari umræðu að hér er þó altént mál sem þingheimur allur er sammála um að bæti verulega réttarstöðu heimila og skuldara. Ég held að ágætt sé að hafa það í huga sem uppeldisfræðin kennir okkur að ekki eigi að skamma börnin þegar þau sýna loksins æskilega hegðun og þess vegna ætti það að vera forgangsmál hjá stjórnarandstöðunni í þessu máli að hrósa því sem vel er gert.

Auðvitað er það svo að á ýmsum sviðum var brugðist of seint við og þessar tölur sem eru nefndar í samantekt úr Seðlabankanum sýna að strax í upphafi árs 2008 voru 20% heimila sem náðu ekki endum saman eða áttu innan við 50 þús. kr. afgangs á mánuði fyrir bankahrun og þau fór upp í 25% á örfáum mánuðum. Hlutfall heimila sem náði bara alls ekki endum saman fyrir bankahrun var 11% í byrjun árs 2008 og komið í 16% í hruninu sjálfu í október eða þar um bil.

Skjaldborgin og velferðarbrúin sem mönnum verður tíðrætt um í hinni opinberu umræðu nú á dögum hefðu því mátt koma nokkuð fyrr og fyrir þann tíma er núverandi ríkisstjórn tók við.