138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

510. mál
[21:45]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að hv. þingmaður misskilji mig ekki. Ég lýsti því yfir að viðhorf mín gagnvart þessu máli væru jákvæð og ég er alveg reiðubúinn til þess að hrósa hv. þingmanni og ríkisstjórninni fyrir þau úrræði sem þar koma fram. Ég lýsti því yfir áðan að ég hef meira að segja talað fyrir ýmsum af þeim sjónarmiðum sem þarna eru lögð til. Ég minnist þess t.d. að í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem ég tók þátt í sneri eitt af þeim stefnumálum sem ég talaði fyrir einmitt að því að heimila fólki að búa í íbúðum sínum í einhvern tíma eftir nauðungarsölu og mælti þar fyrir því að reynt yrði að lina högg þeirra sem mundu fyrirsjáanlega lenda í vanda.

Svo ég ítreki það sem ég sagði áðan er alveg rétt að menn hefðu mátt grípa fyrr inn í, vera með úrræði og hugmyndir sem gengju lengra og hefðu getað nýst heimilunum betur. Það á bæði við um núverandi ríkisstjórn og þá ríkisstjórn sem var áður og jafnvel þær ríkisstjórnir sem voru hér við völd þar áður. Ég minnist þess t.d. að minn góði vinur Einar Oddur Kristjánsson heitinn hafði á hverju ári uppi mikil varnaðarorð um stöðuna í ríkisfjármálunum og framtíðarefnahagshorfur á Íslandi. Ef menn fara yfir þær ræður sem hann hélt hér í þinginu, a.m.k. eina eldmessu á ári, þá komu þar fram spádómar sem því miður hafa ýmsir ræst. Það má kannski segja að þingið hafi á árum áður (Forseti hringir.) mátt taka meira mið af því sem sá ágæti maður sagði.