138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

fjárhagsstaða heimilanna.

[15:36]
Horfa

Margrét Pétursdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nokkur þeirra mála sem eru í meðförum þingsins hafa verið talin hér upp. Við getum verið sammála mörgum sem hafa komið og talað í ræðustól um að auðvitað megi alltaf gera betur en innan þingsins eru mörg mál til meðferðar. Hér hafa verið talin upp mál eins og greiðsluaðlögun einstaklinga, lyklafrumvarp og fyrning gjaldþrots eftir fjögur ár. Við getum lengi upp talið og auðvitað vitum við að við erum að bregðast við vanda sem við hefðum svo gjarnan viljað losna við að takast á við. En þannig er það nú að margir taka á sig byrðar, auka við sig ábyrgð á uppbyggingu samfélagsins og það eru margir sem ættu ekki að þurfa þess. Hér er atvinnuleysi. Ríkisstarfsmenn hafa tekið á sig kjaraskerðingar, aldraðir og öryrkjar og svo mætti lengi telja.

Virðulegi forseti. Það væri vel til fundið hjá hv. málshefjanda að taka ábyrgð með okkur hinum og bjóða samflokksmönnum sínum að gera slíkt hið sama. Við tækjum því fagnandi.