138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[22:51]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal, ég hef heldur aldrei hitt þessa þjóð, ég biðst bara afsökunar á að nota þetta orðalag. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni, ég hef aldrei hitt þjóðina. Ég hef hitt fullt af fólki og einstaklinga í hópum.

Um líkindareikninginn á því hvort sá eða sú sem er í fyrsta sæti fái meira en aðrir, um það veit hv. þingmaður miklu meira en ég. Hann kann miklu meira í líkindareikningi en ég, ég ætla ekki að fara í þá orðræðu. Auðvitað getum við aldrei sagt að flokkarnir muni ekki beita sér eða að þeir muni beita sér. En settar yrðu reglur um hvernig haga mætti fjármagni og hvernig væri með kynningu og þar fram eftir götunum. Það er bara hluti af lífinu að sjá hvernig þar tækist til. Ég mundi kjósa að flokkarnir héldu sig til hlés. Ef ég fengi einhverju ráðið mundi ég leggja það til en það verður náttúrlega lífið að leiða í ljós. Ég kann ekki önnur svör við því.