138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[12:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom inn á það í ræðu minni að þær tillögur sem hv. þm. Þráinn Bertelsson og rithöfundurinn Njörður P. Njarðvík hafa lagt fram eru mjög athyglisverðar. Það er alveg ljóst. Þær eru mjög athyglisverðar og eru í sjálfu sér framlag til þess að reyna að uppfylla það markmið sem flestir hér ræða um, þ.e. að endurskoða stjórnarskrána.

Framsóknarflokkurinn ályktaði á flokksþingi sínu í janúar 2009 að boða bæri til stjórnlagaþings. Lagði flokkurinn fram tillögu þess efnis. Stjórnlagaþing er svolítið annars eðlis en sú tillaga sem hér er spurt um og nefnd, en það kann hins vegar að vera, og það var kannski megininntakið í ræðu minni áðan, að einhvern milliveg geti menn fundið til að sætta þau sjónarmið sem uppi eru um vinnuferlið. Það er hins vegar alveg ljóst að ef svo á að vera þurfum við væntanlega öll að gefa eitthvað eftir af þeirri stefnu sem við höfum gengist undir að vinna eftir hér og jafnvel af persónulegum skoðunum sem við höfum á þessu stóra máli.

Ég held hins vegar að við hefðum hugsanlega, ég og hv. þm. Óli Björn Kárason, getað verið að ræða þetta á öðrum forsendum ef málið hefði fengið eðlilegri umræðu í þinginu og í tíma, þá værum við hugsanlega að ræða þetta á öðrum nótum. En ég útiloka ekki að menn geti mæst þarna einhvers staðar.