138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[13:12]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Framsóknarflokkurinn hefur lengi barist fyrir jöfnum réttindum bæði gagnkynhneigðra og samkynhneigðra. Við viljum ein hjúskaparlög fyrir alla og höfum ályktað um það. Við viljum ekki ein hjúskaparlög fyrir gagnkynhneigða og önnur hjúskaparlög fyrir samkynhneigða eins og er í dag, heldur ein. Við getum ekki haldið uppi mismunun gagnvart samkynhneigðum í lögum. Það er ekki hægt í nútímanum þannig að það er með mikilli gleði sem við styðjum þetta frumvarp og sú er hér stendur. Það er ekki skylda presta að vígja samkynhneigða ef það stríðir gegn trúarsannfæringu þeirra. Mjög stór hluti presta vill fá þessa lagabreytingu í gegn. Ég mun greiða hér atkvæði um frumvarpið algjörlega óbreytt. Ég mun ekki taka þátt í að greiða atkvæði um breytingar af því að þær breytingar sem er verið að leggja til eru ekki þess eðlis að þær hugnist mér.