138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[15:28]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég væri mjög til í að spóla skattaklukkuna aftur á bak, sérstaklega ef við gætum spólað henni aftur til 2003 og tekið upp þær mislukkuðu skattalækkanir í þenslu og uppsveiflu í hagkerfinu sem þá var ráðist í og ef við gætum átt alla þá peninga í forða sem það hefði skilið eftir við að fella ekki niður hátekjuskatt og lækka ekki (Gripið fram í.) skatta með þeim hætti eins og þá var gert. Það kæmi sér ágætlega að eiga þá í hlöðum núna.

Varðandi þá aðferð sem hv. þingmaður stingur upp á tel ég að þetta frumvarp í reynd komi út á eitt í þeim efnum að langstærstum hluta. Það sem það hins vegar heldur utan um er að þegar mjög háar fjárhæðir eiga í hlut og veðlán voru tekin, sem hugsanlega verða síðan lækkuð án þess að ljóst sé nú hvaða eignir kunna að standa einhvers staðar annars staðar hjá viðkomandi aðila, er ekki sjálfgefið að slíkt sé skattfrjálst. Þá kemur mál viðkomandi aðila ósköp einfaldlega til skoðunar. Reynist svo vera, samanber það sem kemur fram í frumvarpinu, að hann sé ekki að hagnast og mynda eign og hann eigi ekki aðrar eignir eða sé aflahæfi hans verulega skert fellur skattskyldan niður. Þetta nær utan um þau tilvik sem við ætlum ekki að láta fá far með í þessu máli, þar sem einstaklingar kunna að hafa verið með mikið lán og mikla veltu og eiga eignir og eru borgunarmenn fyrir því, að niðurfelling í mjög háum fjárhæðum eigi sér stað því að það er ekki meiningin að láta það gerast. Þetta er almenn aðgerð ætluð fólki vegna venjulegra fjárhæða sem tengjast fasteignakaupum og bílalánum og öðru slíku og nær mjög vel utan um 95–98% þess hóps. Það er einungis þessi litli hluti sem af mismunandi ástæðum gæti ella blandast inn í hópinn sem við náum þá utan um með þessum hætti (Forseti hringir.) því að það er ekki ætlunin að leyfa einhverjum fáum einstaklingum að stórefnast á skuldaniðurfellingu í skjóli þess sem verið er að gera fyrir venjulegt fólk.