138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[18:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal hvað þetta varðar. Það liggur fyrir að munurinn á því hvort maður er skattlagður sem einstaklingur eða sem fyrirtæki felst í því að geta einmitt dregið, eins og hann lýsti í máli sínu og hefur sagt áður hér í ræðum, vaxtagjöld frá sem kostnað í rekstri fyrirtækja en vaxtagjöld hjá einstaklingum eða tap út af einhverju öðru sem dregið er frá hjá fyrirtækjum getur maður ekki dregið frá heimilisbókhaldinu eða gagnvart skattinum. Þess vegna er þetta rökrétt þegar skuldir fást niðurfelldar eða leiðréttar hjá fjölskyldunum í landinu eða einstaklingunum. Mér finnst í raun og veru mjög hlálegt að einhverjir lendi hugsanlega í því að fá þær skattlagðar, þ.e. að hugsanlega þurfi einhver að greiða tekjuskatt af niðurfellingu eða leiðréttingu á skuldunum gagnvart heimilunum í landinu.

Það er því, og ég er búinn að segja það hér í tvígang eða þrígang, mjög sérkennilegt að það skuli ekki vera klárt og klippt: Fáist leiðrétting eða skuldaniðurfelling hjá einstaklingum þá er bara enginn skattur innheimtur af því. Mér finnst það vera algjör hugsunarvilla að menn skuli fara í þetta með þessum hætti.

Það er allt annað hvað varðar fyrirtækin. Menn þurfa að skoða það mjög vel. Það væri mjög óeðlilegt ef fyrirtæki fengju leiðréttingu skulda að þau þyrftu ekki að standa skattskil á því vegna þess að fyrirtækið getur líka fært á milli ára tap sem það getur dregið frá þegar fer að ganga betur. Það er því jafnóréttlátt í þá áttina og hina og mjög sérkennilegt þegar kemur fram í máli hæstv. ráðherra að það séu nánast allir sem sleppi og þetta muni ekki hafa áhrif á neinn. Af hverju er þetta þá ekki með þeim einfalda hætti að niðurfelling skulda sé ekki skattskyld á einstaklingum? Flóknara er það ekki.