138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

svar við fyrirspurn.

[12:40]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég tek hérna til máls vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra minntist á mig, með góðu reyndar, áðan þegar hann átti í orðaskiptum við formann Sjálfstæðisflokksins um endurskoðun vatnalaganna. Málið er mér nefnilega skylt vegna þess að ég átti sæti í vatnalaganefnd sem náði ágætissátt um tillögur sem við vildum vinna að til að ná þverpólitískri sátt um framtíðarfyrirkomulag vatnamála á Íslandi. Þessa nefnd skipaði hæstv. utanríkisráðherra sjálfur, þá iðnaðarráðherra.

Vandinn í málinu er hins vegar sá, nú þegar á að fara að afnema vatnalögin, að hvorki ég, aðrir nefndarmenn né þingið fáum að vita eða sjá með hvaða hætti þessar tillögur munu rata inn í nýtt vatnalagafrumvarp sem við sem sátum í nefndinni vildum vinna að. Ég vil bara fá að sjá hvernig á að útfæra þessa sátt í nýju frumvarpi. Mér finnst dálítið furðulegt að það sé orðið (Forseti hringir.) eitthvert leyndarmál hvað ríkisstjórnin ætlar að gera við tillögur sem hún samdi ekki, heldur ég (Forseti hringir.) og aðrir í nefndinni.