138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

svar við fyrirspurn.

[12:41]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið, um fundarstjórn forseta, vegna þess að ég er mikill áhugamaður um að við breytum ásýnd Alþingis og að við breytum svolítið starfsháttunum og jafnvel þessum lið sem við erum einmitt að tjá okkur undir núna. Þess vegna er ég mikill stuðningsmaður stjórnlagaþings. Mér er reyndar ekki alveg sama hvernig það verður útfært, en Framsóknarflokkurinn hefur lagt gríðarlega mikla áherslu á það og er með það í stefnu flokksins. Í leiðara Fréttablaðsins í dag segir hinn ágæti ritstjóri þess, Ólafur Þ. Stephensen, að Framsóknarflokkurinn sé lagstur í málþóf og sé á móti því að færa valdið til að ákveða stjórnarskrárbreytingar út af Alþingi. Það er af og frá og er leiðrétt hér með.