138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[13:19]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum hér að staðfesta lokafjárlög fyrir árið 2008 eins og fram hefur komið og í rauninni eru lokafjárlögin eingöngu staðfesting á ríkisreikningi sama árs og þeim tölum sem þar eru. Um þessar tölur hefur ekki verið ágreiningur, ítrekað hefur verið gengið eftir því í fjárlaganefnd að menn hafi fengið þar ítarlegar upplýsingar og það er ekki ágreiningur um það.

Það kom upp ágreiningur sem hv. þm. Þór Saari gerði grein fyrir hér áðan, hv. þingmaður óskaði eftir því að við mundum bíða með lokafjárlögin á meðan aðrar úttektir og skoðanir ættu sér stað. Ég tel ekkert tilefni til þess. Ég tel að vísu fulla ástæðu til að skoða hvað gerðist í Seðlabankanum og hvers vegna hlutir fóru með þeim hætti sem þar gerðist en það tengist ekki þessum lokafjárlögum og því legg ég áherslu á að málið verði afgreitt hér og segi já.