138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[17:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra talaði um leik, en sjálfur talaði hann um fundarstjórn forseta klukkan 16.56. Það er hann, hæstv. ráðherra, sem hóf leikinn. Það var hann sem fór upp undir liðnum um fundarstjórn forseta, en ekki ég. Ég var að svara undir liðnum um fundarstjórn forseta af því að ég á ekki fleiri ræður í þessari umræðu. Ég er með nokkrar fyrirspurnir til hæstv. ráðherra sem hann var ekki viðstaddur til að hlusta á eða svara. Fyrsta spurningin er: Breytast mannréttindi og mannréttindabrot eitthvað við það að Mannréttindadómstóll Evrópu fellir dóm? Brutu lögin mannréttindi daginn eftir eða klukkutíma eftir að dómurinn féll, eða voru þau alltaf mannréttindabrot?

Vegna þess að hæstv. ráðherra talar stöðugt um að gjaldtakan sé nú ekki eiginlega mannréttindabrot vil ég benda á það að Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að þessi lög brytu mannréttindi. Hæstv. ráðherra getur ekki talað út og suður um það að hann túlki þetta einhvern veginn öðruvísi, eins og þetta sé hálfgildings mannréttindabrot. Framkvæmd laganna sem er inni í lögunum sjálfum er mannréttindabrot, það stendur þar að það eigi að greiða til Samtaka iðnaðarins. Þess vegna ber að afnema lögin með öllu. Það á að endurgreiða þeim sem vilja aftur í tímann. Það er þetta sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra að því hvort þessi hæstv. ríkisstjórn sem væntanlega gefur sig út fyrir að styðja mannréttindi — eða hvað, ekki vill hún brjóta mannréttindi? — ætlar að fara í gegnum allt lagasafnið og kanna sambærileg lög sem ég er margbúinn að nefna. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórn og rætt var um mannréttindabrot var drifið í því að (Forseti hringir.) laga það.