138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

reglur um þjóðfánann.

643. mál
[12:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er hægt að spyrja sig hví sú er hér stendur tekur þetta mál yfirleitt upp. Það er vegna þess, og það kom fram í svari hæstv. forsætisráðherra, að í allsherjarnefnd er frumvarp um að rýmka reglurnar varðandi það að merkja t.d. búvörur með íslenska fánanum. Menn geta farið út í búð, keypt íslenska vöru og séð strax hvað er íslenskt og hvað ekki, af því að þá er íslenski fáninn á þeirri íslensku.

Ég skil málin þannig, virðulegi forseti, að hæstv. forsætisráðherra geti sett reglugerð um notkun þjóðfánans í því skyni að rýmka fánatímann þannig að það sé á hendi hæstv. forsætisráðherra. Ég fagna því sem hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan að vilji sé til þess að skoða það að rýmka reglurnar á þann hátt sem ég hef lagt til í þingsályktunartillögu. Í þingsályktunartillögunni er verið að falast eftir því að forsætisráðherra setji reglugerð. En ef hæstv. forsætisráðherra vill setja reglugerðina er henni ekkert að vanbúnaði að mínu mati.

Eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði hér áðan er mikilvægt að auka notkun þjóðfánans almennt og ég held að vel fari á því. Þá þarf að hafa reglurnar þannig að líklegt sé að fólk noti þjóðfánann. Það virðist hafa verið að einhverju leyti hamlandi að flagga. Menn hafa áhyggjur af því að brjóta lög og vilja taka fánann niður á réttum tíma. Ég held að þetta sé sérstaklega áberandi yfir sumartímann, fólk hefur áhyggjur af því að gleyma að taka niður fánann á kvöldin.

Virðulegur forseti. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að hafa fánann við hún allan sólarhringinn, sérstaklega yfir bjartasta tímann. Þess vegna skora ég á hæstv. forsætisráðherra að breyta reglugerð þannig að frá 15. maí til 15. ágúst verði heimilað (Forseti hringir.) að halda þjóðfánanum við hún allan sólarhringinn.