138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

Maastricht-skilyrði og upptaka evru.

464. mál
[13:09]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa fyrirspurn og tek upp þráðinn þar sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir endaði. Ekki alls fyrir löngu kom fram stjórnmálafræðingur sem hefur kynnt sér málið vel og tók undir sjónarmið þeirra sem hafa haldið því fram að Ísland fengi að öllum líkindum ekki þær undanþágur sem haldið var á lofti að það fengi fyrir síðustu alþingiskosningar um einhvers konar hraðferð inn í evruna. Þetta var Auðunn Arnórsson stjórnmálafræðingur. Í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir því að það taki Ísland um 30 ár að uppfylla Maastricht-skilyrðin þegar kemur að skuldum ríkissjóðs.

Ég kalla eftir því að hv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem og aðrir þingmenn sjái nú ljósið í þessu og átti sig á því að það er enginn vilji hjá þjóðinni til þess að halda ferlinu áfram. Hér hefur ávallt verið haldið uppi rómuðum málflutningi þess efnis að okkur byðust (Forseti hringir.) óteljandi undanþágur. Ég bíð eftir því að menn fari að sjá ljósið.