138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[12:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er kannski hlutur sem hefur verið of lítið ræddur hér, þ.e. að með því að fara þessa leið er verið að létta skuldastöðu ríkisins hvað þetta varðar. Það sem við ræddum ekki hér eða ég spurði ekki að, sem hv. þingmaður kom reyndar aðeins inn á, var þetta kerfi sem talað er um að taka upp, GPS-staðsetningarkerfi í bílum, og að þá sé hægt að lesa hver er að keyra hvar og hvenær og hvernig og borgað sé eftir því. Ég sé einhvern veginn fyrir mér að utan um þetta geti byggst töluvert eftirlits- og umsjónarapparat til að fylgjast með því að þeir sem séu á ferðinni fái þann afslátt sem þeir eiga að fá og allt slíkt.

Ég er ekki að segja þetta hér, frú forseti, vegna þess að ég telji að þetta komi ekki til greina heldur aðeins að við þurfum alltaf að velta upp kostum og göllum. Mig langar því að velta því upp hvort hv. þingmaður hafi engar áhyggjur af því að eftirlitskerfi sem þetta, sem getur staðsett einstaklinginn hvar sem hann er — hvort hætta sé á að það verði notað í einhverjum öðrum tilgangi og hvort það kalli þá ekki á mjög herta og jafnvel sérstaka löggjöf um persónufrelsi einstaklinga þegar þetta er komið í ökutæki þeirra. Nú kann að vera að persónuverndarlögin okkar taki á þessu, ég bara þekki það ekki, en ég óttast að þetta gæti verið upphafið að einhvers konar auknu eftirliti með einstaklingum sem við þurfum ekki endilega að vera sátt við í dag.