138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[17:56]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við hv. þingmaður deilum þeirri skoðun að mikilvægt sé að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um þau mál sem beint er í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vil taka það fram hér að ég er mjög fylgjandi almennum þjóðaratkvæðagreiðslum og að þjóðin fái aukna möguleika á þeim, hvort heldur er að draga til baka lagafrumvörp eða þingsályktanir eða vísa ákveðnum málum beint til þjóðarinnar.

Ég er einn af þeim sem höfðu miklar efasemdir um Lýðræðisstofu fyrst þegar hugmyndin kom fram. Eftir að ég kynnti mér það sem tengist til að mynda þessari Evrópusambandsumsókn, sem að öllum líkindum verður fyrsta málið sem fer í gegnum þessa stofu, hef ég miklar efasemdir um einmitt það sem hv. þingmaður er að tala um, að hér fari fram opin, lýðræðisleg og gagnsæ umræða um þessi mál. Það hefur sýnt sig. Áhyggjur manna í öðrum ríkjum þar sem greitt hefur verið atkvæði um Evrópusambandsumsókn eru einmitt þær að Evrópusambandið hefur alla jafna komið með miklar fjárhæðir inn í kosningabaráttuna, einkum á síðustu metrunum. Ég nefni til að mynda Tékkland þar sem mikil andstaða var við aðild að Evrópusambandinu, en það sem gerðist á síðustu metrunum var að ógrynni fjármagns kom þar inn, auglýsingar og annað, og almenningsálitinu var snúið með auglýsingum og öðru því um líku.

Það sama gerðist í Svíþjóð. Ég er mikill fylgismaður þess að tryggð sé þessi hlutlausa aðkoma með Lýðræðisstofunni og mér líst að mörgu leyti betur á þá hugmynd eftir því sem ég skoða hana betur. Mig langar því að spyrja hv. þingmann aftur hvort hún óttist ekki það mikla fjármagn sem komi hér inn og að Evrópusambandið muni gera það sama og það hefur gert annars staðar. Er það ekki nokkuð sem okkur ber að taka á og hafa áhyggjur af í heildarsamhenginu?