138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það kann vel að vera að þrátt fyrir þessa sameiningu ráðuneyta og fækkun þeirra niður í níu, sumir vilja átta eða færri, eigi eftir að eiga sér stað umræða um mögulega tilfærslu afmarkaðra þátta milli ráðuneyta í framtíðinni. Það er mjög líklegt enda væri óskynsamlegt að reikna með öðru en því að menn gætu komist að þeirri niðurstöðu að einhverjir hlutir ættu betur heima annars staðar.

Þetta á að mínu mati ekki að vera svo rígbundið í einhverri vanahugsun að tiltekin verkefni verði bara að heyra undir tiltekið nafn, eða hvað er það sem skiptir máli? Er það ekki starfsemin, er það ekki þjónustan, er það ekki að fjármunir nýtist vel? Jú, það hélt ég. Þess vegna útiloka ég ekkert í þeim efnum, t.d. að þegar yfirfærsla málefna til sveitarfélaganna er komin á sinn stað kunni menn að gera einhverjar breytingar á móti af ríkisins hálfu. Ég er reyndar mjög hallur undir þá aðferðafræði sem er almennt ríkjandi annars staðar á Norðurlöndunum að framkvæmdarvaldið hafi miklu meira svigrúm til að ákvarða þessa hluti sjálft og gera á þeim breytingar, búa til ný ráðuneyti, færa á milli, (Forseti hringir.) sameina, og þurfi ekki að bera það undir löggjafarvaldið. Við erum hins vegar að gera það (Forseti hringir.) hafandi þó heimild til hins gagnstæða af því að við viljum bæði hafa Alþingi með í þessu og líka aðila úti í samfélaginu.