138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:44]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að hæstv. fjármálaráðherra þyki það tuð þegar við vekjum athygli á því að fullkomin óvissa er um stöðu þess máls sem hér er um að ræða. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra leiðist að það sé rifjað upp að mikil andstaða er við þetta mál í hans eigin flokki. En við skulum ekki gera það að stærsta málinu í þessari umræðu.

Stóra málið er einfaldlega það að hér er verið að leggja fram frumvarp sem er afrakstur einhverra pólitískra hrossakaupa, það er niðurstaðan. Málið er síðan sett fram í fullkominni óvissu, þetta er eins konar kynningarefni sem við eigum að ræða hér. Hæstv. ráðherra vísaði til þess að mikil andstaða væri við tiltekna þætti þessa máls, m.a. á meðal hagsmunaaðila. Hefði ekki verið eðlilegt að vinna málið t.d. þannig að reyna að leiða saman þau sjónarmið, koma fram með einhverjar skýrari hugmyndir að þessu leyti?

Sú leið er greinilega ekki farin. Hæstv. ríkisstjórn hefur gefist upp á þessu viðfangsefni sínu, kýs að leggja fram kynningarefni í þinginu á haustdögum sem þingið á síðan að (Forseti hringir.) leysa úr. Ég get út af fyrir sig tekið undir það, (Forseti hringir.) Alþingi Íslendinga er örugglega betur til þess fallið, a.m.k. minni hlutinn, (Forseti hringir.) að takast á við þetta mál en ríkisstjórnarflokkarnir.