138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

árleg ráðstefna á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna.

341. mál
[11:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ef hv. þingmaður á erfitt með að fylgja utanríkisráðherra eftir þá á hann að fljúga hærra, ferðast hraðar. Ég ætla ekki að halda því fram að hv. þingmaður sé beinlínis lenínisti í viðhorfum sínum til miðstýringar á Íslandi og auðvitað er ég ekki að gera honum það upp að hann vilji miðstýra rannsóknum. En það gegnir allt öðru máli t.d. um hafnargerð en rannsóknir.

Ég er honum sammála um það að við þurfum að gæta þess að sá mjói vísir sem þarna hefur orðið til og þegar skilað mikilvægum og að mörgu leyti aðdáunarverðum árangri slitni ekki. Við þurfum að bera áburð í svörðinn í kringum hann, ég er sammála hv. þingmanni um það. Svo gleðst ég yfir jákvæðum orðum hans um aðkomu mína að CAFF og PAME en það var einmitt svo að þegar ég var umhverfisráðherra seint á síðustu öld hafði ég frumkvæði að því að CAFF kom hér og undirbjó PAME. Hv. þingmaður var þá að slíta pólitískum bæjarstjóraskóm sínum á Dalvík, ef ég man rétt. Hann hefur síðan lagt gjörva hönd að því eins og mörgu öðru jákvæðu.

Í grunninn vil ég einungis segja að ég tel að þarna sé um jákvætt frumkvæði að ræða. Aðeins vil ég þó drepa á kaupfélagið stóra Evrópusambandið. Ég er náttúrlega þeirrar skoðunar að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið og eitt af því sem ég tel að það eigi að hafa í för með sér er að á Akureyri verði sett niður miðstöð norðurslóðarannsókna Evrópusambandsins og það er eitt af því sem ég mun berjast fyrir. Ég vona að hv. þingmaður taki á með mér í þeim efnum en ég óttast það auðvitað að hann hafi undirgengist einhverjar vitlausar skoðanir manna utan úr bæ sem mér finnst því miður í allt of ríkum mæli stýra Sjálfstæðisflokknum í dag og hafa svipt hann þeirri víðsýni sem hv. þingmaður var þekktur fyrir fyrr á árum. Ég hef ekki nema eitt ráð við því og það er að hv. þingmaður hætti að lesa Morgunblaðið eins og ég. (Gripið fram í: Heyr.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)