138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rangt eftir haft hjá hv. þingmanni að ég hafi kallað hér fram í fyrr í dag eitthvað sem fæli í sér viðurkenningu á því að ríkisstjórnin eins og hún er skipuð nú sé minnihlutastjórn. Svo er alls ekki. Þvert á móti færði ég rök fyrir því að þetta væri styrk meirihlutastjórn. Það mátti hins vegar ráða af máli mínu að vera kynni að í undanfara þessarar breytingar hefði ástand ríkisstjórnarinnar verið þannig að ýmsir skyni bornir menn hefðu notað það hugtak yfir hana. Ég er ekki í þeirra hópi.

Um þetta mál er það eitt að segja að auðvitað svíður hv. þingmanni að bent sé á hvernig vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins, undir forustu hennar sem þingflokksformanns, eru orðin. Það er allt annar bragur á Sjálfstæðisflokknum nú en áður. Eftir að hv. þingmaður tók við forustu í þingflokknum er allra ráða og bragða leitað til þess að tefja mál. Það fer lítið fyrir málefnalegri umræðu. Að þessu sinni er málið þannig vaxið að ef það væri vilji hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins að fá þetta mál í þann umsagnarferil sem hv. þingmaður gerði svo mikið úr áðan hefðu þeir komið því á framfæri áður en málið kom hingað til 2. umr. Það að kjósa að bíða með það þangað til núna og krefjast þess núna er auðvitað fyrst og fremst til þess að seinka málinu, reyna að koma í veg fyrir að hægt sé að samþykkja það hér á sumarþinginu. Þannig vinnur Sjálfstæðisflokkurinn í dag. Hann vinnur ekki lengur málefnalega.

Má ég þá aðeins spyrja hv. þingmann um eitt? Hér í gær töluðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins og það var hægt að kreista upp úr þeim að þeir styddu stofnun innanríkisráðuneytis. Það kemur mér ekki á óvart, vegna þess að hægt er að leita áratugi aftur í tímann og sjá þess stað að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft þá stefnu mjög lengi. Hv. þingmaður lýsti því þá yfir í júní, í umræðum um annað mál, að hún styddi stofnun innanríkisráðuneytis. Nú langar mig að spyrja hv. þingmann: Hefur hún enn einu sinni hringsnúist og skipt um (Forseti hringir.) skoðun? Styður hún stofnun innanríkisráðuneytis?