138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

skipulagslög.

425. mál
[16:57]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Með framsögu minni var ég að vísa til þess að í nágrannalöndum okkar, þar sem við höfum leitað fanga og leitast við að læra af, hafa menn lagt landsskipulag sem grunn að landnýtingu, eins og bent er réttilega á, til langs tíma, til 12 ára í senn. Nú er það ekki ákveðið til hve langs tíma sóknaráætlunin verður mörkuð en sóknaráætlun felur eins og segir í þingsályktunartillögunni, með leyfi frú forseta, „í sér áform um fjárfestingar í mannauði og nauðsynlegum innviðum efnahagslífsins og stefnu um hvernig megi styrkja menntun og menningu, nýsköpun og þróun, umhverfismál og samfélagslega innviði“.

Ég lít svo á, og það er skilningur held ég að megi segja allra þeirra sem hafa unnið eftir sóknaráætlun, að til þess að geta lagt áherslu á og mótað stefnu á hvaða svæðum landsins skuli lögð áhersla á t.d. þennan og hinn atvinnuveginn hljóti að þurfa að byggja á landnotkunaráætlun, þ.e. hvar á landinu menn telji t.d. helst að eigi að vera frístundabyggð. Þegar það liggur fyrir í landsskipulagi geta menn sagt að þarna verði sérstök áhersla í fjárfestingum í innviðum, svo sem samgöngum, upplýsingatækni eða öðru því um líku, sérstök áhersla á það sem heitir þá frístundabyggð samkvæmt landsskipulagi. Þetta er uppbyggingaráætlun byggð á landnotkun.