138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir að beina til mín fyrirspurn þrátt fyrir að það sé kannski að sækja vatnið yfir lækinn vegna þess að við erum sessunautar.

Afstaða Sjálfstæðisflokksins? Ég held að það sé algerlega ljóst að við erum fylgjandi þeirri áætlun sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð að því að gera með AGS haustið 2008 en við ætlum ekki að beygja okkur undir neina afarkosti hjá AGS, þvert í mót. Jafnframt tel ég að frekari lánveitingar, þannig að ég svari þeirri spurningu beint, þarfnist endurskoðunar við. Ég er algerlega á því að þriðja endurskoðunaráætlun AGS eigi að fara fram og jafnframt lýsi ég því yfir að ég tel að það hafi verið mikið gagn að því að hafa Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á Íslandi. Hann hefur veitt stjórnvöldum aðhald, og eitt af grunnatriðunum til að aflétta gjaldeyrishöftunum er vera sjóðsins hér.

Ef við förum yfir þau þrjú atriði sem eru sett fram og þarf að uppfylla til að geta afnumið gjaldeyrishöftin, þ.e. að peningastefnunni verði stýrt þannig að hún stuðli að stöðugleika í gengismálum, í öðru lagi að væntingar um framvindu endurreisnar efnahagslífsins og áætlaður aðgangur að viðskiptajöfnuði muni styðja við krónuna og í þriðja lagi að Seðlabankinn þurfi að ráða yfir verulegum gjaldeyrisforða, held ég að tvö af þessum þrem atriðum séu uppfyllt, m.a. með hjálp Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það sem vantar upp á eru væntingar um framvindu efnahagsstefnunnar og þar (Forseti hringir.) ber að horfa til ríkisstjórnarinnar sem hefur í ráðleysi sínu ekki náð að koma af stað hagvexti á Íslandi.